Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Mjallhvít og fasistadvergarnir fjórir
  • Mjallhvít og fasistadvergarnir fjórir
    Ívar Pétur Guðnason
Fimmtudagur 27. mars 2014 kl. 10:35

Mjallhvít og fasistadvergarnir fjórir

– Ívar Pétur Guðnason skrifar

Mjallhvít var stór og myndarleg prinsessa sem hafði sameinast tveimur systrum sínum og var hún tveir þriðju hlutar íbúanna á dvergaheimilinu.

Þegar heimilið var sett á stofn var ætlast til að allir þar legðu jafnt að mörkum til rekstursins. Í raun var það samt Mjallhvít sem gerði allt – hvort sem það var að sinna heimilisstörfum, borga rafmagn og hita, eða vinna í garðinum. Þegar hún benti dvergunum fjórum á að sanngjarnt og réttlátt væri að allir legðu eitthvað á sig fóru þeir bara í fýlu og sögðu að Mjallhvít væri að níðast á þeim í krafti stærðar sinnar. Af því að Mjallhvít var góð og vel upp alin stúlka lét hún kyrrt liggja og hélt áfram að bera meginþungann af sambýlinu. Stundum fór einhver dvergurinn út með ruslið og þá þóttist hann ekki þurfa að gera meira þann mánuðinn eða það árið.

Einn dvergurinn fékk því til leiðar komið að Nonni frændi sinn fengi að stjórna því þegar kveikt var í ruslinu á heimilinu. Nonna fannst ekki hægt að vera á einhverju skítakaupi við að kveikja í ruslinu og vildi meiri pening. Þá samþykktu dvergarnir að litlu maurarnir, sem stundum fóru með einstaka spýtu eða sófa eða dýnu í ruslið, þyrftu eftirleiðis að borga Nonna fyrir þau forréttindi.

Þegar þetta hafði gengið nokkurn tíma fannst Mjallhvíti nóg komið. Maurarnir áttu flestir lítinn aur og höfðu að auki verið rukkaður á hverju ári um sérstakan skatt til að brenna ruslið þeirra. Þeim fannst að verið væri að láta þá borga tvisvar fyrir sama hlutinn – bara til þess að Nonni og vinir hans fengju meiri aur í vasann. Mjallhvít var sammála þessu og heimtaði að dvergarnir hættu að níðast á maurunum sínum. Þá sögðu dvergarnir: „Þú ert kannski tvöfalt stærri en við samanlagt og maurarnir þínir borga 2/3 af kostnaði við brunann, EN við erum fjórir og þú bara ein! Þess vegna ráðum við!“

Maurarnir þurfa því áfram að borga tvisvar fyrir að henda ruslinu sínu en þeir eru núna að biðja Mjallhvíti að segja skilið við dvergana fjóra, fara að halda eigið heimili og segja alfarið skilið við dvergana fjóra. Sjálfsagt sé að selja þeim þjónustu, en besti kosturinn fyrir þá er að sjálfsögðu að sameinast Mjallhvíti. Þá verða engir dvergar til lengur, heldur eru allir sameinaðir, stórir og sterkir undir pilsinu hennar Mjallhvítar. Ertu ekki sammála um að það sé best?

Ívar Pétur Guðnason

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024