Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 4. október 2005 kl. 09:37

Misskilin könnun í Vatnsleysustrandarhreppi

Í desesmber sl. lét sveitarstjórn Vatnsleysustrandarhrepps fyrirtækið PARX kanna í síma hug okkar hreppsbúa til sameiningar. Ég hef haldið því fram að sú könnun hafi ekki gefið svar við því hvort fólk vildi frekar sameiningu eða vera áfram sjálfstætt sveitarfélag, bæði vegna þess hvernig spurningar voru orðaðar og einnig sé ekki rétt að kanna hug fólks í svo afdrifaríku máli með símakönnun þar sem engin umræða hefur átt sér stað áður.
Ég leitaði til dr. Þorláks Karlssonar við Háskólann í Reykjavík, sem þekkir manna best til skoðanakannana og bað um hans álit á könnuninni. Svar hans fer hér á eftir.

Álit dr. Þorláks Karlssonar
Ég skoðaði niðurstöður á könnun sem PARX gerði meðal íbúa Vantsleysustrandarhrepps þar sem spurt var meðal annars:

Gætir þú hugsað þér að Vantsleysustrandarhreppur sameinaðist einhverju öðru sveitarfélagi eða sveitarfélögum?

EF þessari spurningu er ætlað að meta vilja íbúa hreppsins til sameiningar er það mitt mat að þetta sé ekki heppilegt orðalag. Nú kann markmið könnunarinnar að hafa verið annað, það veit ég ekki.

Það er tvennt sem orkar tvímælis í spurningunni:

1.
Annars vegar er orðalagið „Gætir þú hugsað þér...“ (mín undirstrikun) of almennt og ekki nógu beinskeytt um hvað sé vilji fólks. Margir „gætu hugsað sér“ hitt og annað án þess að vilja það þegar á reyndi. Best er að hafa umsögn í spurningunni sem líkast þeirri umsögn sem notuð yrði eða notuð verður þegar kosið er. Að minnsta kosti hlýtur betra orðalag að felast í hvort menn vilji sameiningu eða ekki.

2.
Hins vegar mæli ég eindregið gegn því að nota spurningu sem kallar á „já/nei svar“, þegar spurt er um viðhorf eða skoðun, vegna hættu á samþykkishneigð. Hér ætti að spyrja hvort menn vildu EÐA vildu ekki sameiningu. Leggja fram tvo jafngilda kosti (í stað þess að spyrja um aðeins annan).

Að ofansögðu má sjá að orðalag spurningarinnar er ekki gott EF henni er ætlað að meta afstöðu fólks til sameiningar sveitarfélagsins við annað sveitarfélag. Hvort atriði fyrir sig kann að valda því að stuðningur við sameiningu sé ofmetinn.

Ég hefði orðað spurninguna á eftirfarandi hátt:

Vilt þú eða vilt þú ekki að Vatnsleysustrandarhreppur sameinaðist einhverju öðru sveitarfélagi eða sveitarfélögum?

Besta kveðja,
Þorlákur Karlsson
Forseti viðskiptadeildar HR og
fyrverandi rannsóknarstjóri og framkvæmdastjóri Gallup

Vildu Vogabúar sameiningu í des. sl.?
Hreppsnefnd okkar og fyrirtækið PARX lásu það út úr könnuninni að svo væri. Svo var Hafnfirðingum boðið upp í dans og vonandi endar sá dansleikur á laugardaginn þegar við hreppsbúar tjáum hug okkar skýrt og skorinort í kjörklefanum - þar sem flestir munu segja nei. Þá mun sveitarfélag okkar halda áfram göngu sinni á vit framtíðarinnar og Hafnfirðingar halda sínu striki án þess að gleypa okkur.

Þorvaldur Örn Árnason
Kirkjugerði 7, Vogum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024