Mismunun á íþróttafélögum í Reykjanesbæ
– Forystumenn Reykjanesbæjar kjósa að hunsa Golfklúbb Suðurnesja algerlega
Nú get ég ekki lengur orða bundist og finn mig knúinn að vekja máls á því sem ég tel algerlega óásættanlega framkomu bæjaryfirvalda í garð Golfklúbbs Suðurnesja. Þeir sem leggja stund á golfíþróttina og voru skráðir í Golfklúbb Suðurnesja árið 2012 voru 524. Til samanburðar eru 570 skráðir iðkendur í fimleikum, 622 í knattspyrnu og 648 í körfuknattleik (tölur um iðkendafjölda árið 2012 eru fengnar úr skýrslu Jóhann B. Magnússonar á vef ÍRB).
Þessar tölur sýna að golf er ein af mest stunduðu íþróttagreinum Reykjanesbæjar.
Golfklúbbur Suðurnesja hefur ítrekað leitað eftir stuðningi Reykjanesbæjar á undanförnum árum en mætir algeru skilningsleysi þar á bæ. Við erum ekki að biðja um mikið, óskum aðeins eftir að fá að sitja við sama borð og önnur íþróttafélög/íþróttadeildir í bænum. Hér ætla ég aðeins að tíunda samskipti Golfklúbbsins við forráðamenn bæjarins í örfáum af fjölmörgum erindum sem hafa verið send til ráða og nefnda sveitarfélagsins.
Til að byrja með langar mig að ræða eitt lítið erindi, ósk okkar um að Reykjanesbær taki þátt í vatnskostnaði Golfklúbbsins, en samkvæmt okkar eftirgrennslan er Golfklúbbur Suðurnesja eina iþróttafélagið á Íslandi sem ber þann kostnað sjálft. Formlegt erindi um þetta mál var sent til Íþrótta- og tómstundaráðs þann 31. desember 2012. Formaður ráðsins svarar þann 8. janúar 2013 „Vatnið er komið í sinn farveg.“ Hver sá farvegur er veit sennilega enginn því nú líður og bíður og ekkert bólar á málinu, hvorki já eða nei. Þessu erindi er bókstaflega stungið ofan í skúffu og gleymt. Af og til er haft samband og spurt um stöðu mála en fátt verður um svör. 17. nóvember 2014 sendir undirritaður því aftur formlegt erindi til Íþrótta- og tómstundaráðs þar sem við biðjum enn og aftur um þátttöku Reykjanesbæjar í vatnskostnaði félagsins. Í vor var svo haldinn fundur í golfskálanum í Leiru þar sem formaður GS, framkvæmdastjóri GS, formaður bæjarráðs og bæjarstjóri ræddu málefni Golfklúbbs Suðurnesja, meðal mála var rætt um vatnskostnaðinn. Enn á Golfklúbburinn eftir að fá svar við þessu erindi okkar.
Ofangreint mál er minniháttar og ég nota það aðeins sem dæmi, hér er ekki verið að ræða háar fjárhæðir heldur sanngirnismál af okkar hálfu. Öllu alvarlegra mál er sú staðreynd að ég hef ritað bæjarráði erindi í tvígang á þessu ári. Í fyrra skiptið þann 3. febrúar til að reyna að fá viðbrögð við erindum sem ég hafði sent á Íþrótta- og tómstundaráð en ekki fengið svör við. Það erindi var tekið af dagskrá bæjarráðs að mér forspurðum. Eftir minni bestu vitund er það hreint og klárt brot á sveitarstjórnarlögum. Seinna erindið sendi ég þann 12. maí síðast liðinn og hefur það ekki enn verið tekið fyrir á bæjarráðsfundi, sextán dögum og tveimur bæjarráðsfundum síðar (upplýsingar sem ég fékk á skrifstofu Reykjanesbæjar voru á þann veg að erindi sem berast bæjarráði fyrir kl. 9.00 á þriðjudagsmorgni eru tekin fyrir á fundi ráðsins á fimmtudegi).
Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar var Golfklúbbur Suðurnesja meðal allra sterkustu golfklúbba landsins. Fjölmargir Íslandsmeistaratitlar féllu okkur í skaut og þeir voru ófáir kylfingarnir úr GS í landsliðshópum Íslands. Við höfum dregist verulega aftur úr öðrum klúbbum landsins í dag, enda njóta þeir í flestum tilfellum velvildar sveitarfélaga sinna. Meðal mála sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur ítrekað óskað eftir er bætt æfingaaðstaða. Það er dapurleg staðreynd að golfíþróttin á ekki upp á pallborðið hjá þeim sem úthluta styrkjum til íþróttagreina í Reykjanesbæ. Við höfum náð frábærum árangri með þann fámenna kjarna sem við höfum í dag og er það elju þeirra sjálfra og forráðamanna þeirra að þakka, ekki íþróttahreyfingunni hér í bæ. Foreldrar þurfa að keyra þessa krakka á höfuðborgarsvæðið nokkrum sinnum í viku yfir vetrartímann til að þau geti stundað sína íþrótt (eitthvað sem myndi sennilega ekki þykja boðlegt fyrir iðkendur annarra íþróttagreina) – því hér í bæ er ekki boðleg aðstaða til æfinga. Golfklúbburinn hefur haft HF við Hafnargötu til umráða frá síðustu aldamótum, þá fékk hann það til bráðabirgða því til stóð að rífa húsið. Þetta er heilsuspillandi húsnæði í niðurníðslu sem heldur hvorki vatni né vindum … en þykir full gott fyrir kylfinga.
Það er mér með öllu óskiljanlegt að Reykjanesbær kjósi að líta algerlega framhjá Golfklúbbi Suðurnesja, skiptir engu hvert erindið er. Félag með meira en 500 iðkendur og yfir 50 ára sögu í íþróttalífi bæjarins.
Jóhann Páll Kristbjörnsson,
formaður Golfklúbbs Suðurnesja.