Minningarorð um Árna Johnsen og bátasafnið
Fallinn er frá góðvinur minn Árni Johnsen en hann lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja þann 6. júní síðastliðinn.
Kynni okkar Árna hófust eftir að ég gerðist félagi í Lionsklúbbi Keflavíkur. Árni var fastagestur hjá okkur á kútmagakvöldum og var ávallt aufúsugestur. Seinna stofnuðum við bátafélagið sem hafði þann tilgang að koma upp bátasafni Gríms Karlssonar. Árni og Grímur voru miklir mátar og með stofnun bátafélagsins var hafist handa við að koma öllum bátalíkönum sem Grímur hafði smíðað undir eitt þak.
Ég get fullyrt að með samvinnu okkar í bátafélaginu og hjálp Valgerðar sem réð ríkjum í Duus húsum tókst okkur, mest með hjálp Árna, að koma upp safninu. Með aðstoð frá fjárveitinganefnd Alþingis sem Árni hafði milligöngu um tókst okkur oftar en ekki að auka við flotann í safninu.
Ég kveð þennan góða vin og votta aðstandendum samúð.
Hafsteinn Guðnason.