Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Minningarorð: Eiríkur Gunnar Ólafsson
Laugardagur 12. október 2019 kl. 08:18

Minningarorð: Eiríkur Gunnar Ólafsson

f.15/1 1936 - d. 4/9 2019

Elsku besti afi minn,

frá því ég man eftir mér hef ég alltaf verið mikil afa­stelpa. Þú átt sérstakan sess í hjarta mínu og munt alltaf eiga. Ég er þakklát fyrir allar góðu minningarnar sem ég á um þig. Ég var alltaf litla barnið í augum þínum þó ég væri orðin fullorðin. Þú vildir passa upp á að ég hefði það gott. Við höfum alltaf verið svo góðir vinir og átt einstakt samband. Það var gaman að grínast með þér og þú hafðir alltaf áhuga á að vita hvað væri að frétta af mér og Boga mínum. Síðustu árin sastu mikið í hægindastólnum þínum og það var notalegt að sitja hjá þér og spjalla saman.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég var heppin að alast upp í sama bæ og þið amma og naut oft samvista við ykkur. Það var alltaf notalegt í Háholti 5 og við brölluðum ýmislegt saman þar. Ég man alltaf eftir því þegar við gerðum lítið snjóhús í garðinum ykkar og settum síðan kerti inn í það, mér fannst það töfrum líkast. Þú varst líka alltaf til í eitthvað glens og sast stilltur eitt skiptið án þess að segja orð á meðan ég setti rúllurnar hennar ömmu í hárið á þér og þóttist dekra við þig eins og á snyrtistofu.

Þær voru ófáar sumarbústaðarferðirnar með þér og ömmu. Þú varst svo duglegur að vinna uppi í bústað, alltaf úti að brasa og leggja net út í vatnið. Ég fékk oft að hjálpa til við vinnuna en fannst frekar erfitt að sjá lifandi silunga í netinu. Þú leyfðir mér stundum að sleppa lifandi fiski aftur út í vatnið.

Á leiðinni heim úr sveitinni þurftirðu alltaf að sækja vinnubílinn til Hafnarfjarðar sem hafði verið þar yfir helgina og alltaf sat ég með þér í bílnum heim til Keflavíkur. Þú baðst mig þá um að syngja Hafið bláa hafið alla Reykjanesbrautina, þú hafðir svo gaman af söng. Ég man að ég sat í bílnum, horfði út á hafið og söng fyrir þig sama lagið aftur og aftur. Það er ein uppáhaldsminningin mín.

Þú hvattir mig alltaf áfram og fylgdist vel með hvernig mér gekk í skólanum. Þegar ég vissi ekki alveg hvað ég vildi læra eftir stúdentinn hvattir þú mig til að læra hjúkrun. Þú sagðir að þá gæti ég hjúkrað þér þegar þú værir orðinn gamall og lasinn. Ég ákvað að læra hjúkrun og sé ekki eftir því en þú ert hluti af ástæðunni fyrir því vali elsku afi minn.

Eftir að ég sagði þér að ég væri ófrísk á þessu ári pældirðu mikið í bumbunni og spurðir alltaf um hana. Þú sagðir mér að fara varlega með magann sem ég hef að sjálfsögðu alltaf gert. Það var svo gaman að sýna þér sónarmyndirnar, þér fannst þetta ótrúleg tækni og hafðir svo gaman af að sjá litla krílið. Ég bjóst við að þú myndir lifa að sjá þegar krílið væri komið í heiminn en ég veit að þú munt vaka yfir því og fylgjast með frá öðrum stað.

Þú kvaddir okkur á friðsælan og fallegan hátt og þó ég muni sakna þín þá veit ég að þér líður betur núna. Ég sé þig fyrir mér með vel sykrað kaffi í hönd að spjalla við ættingja þína og vini sem eru fallnir frá.

Ég veit þú vakir yfir okkur öllum og litla barninu í bumbunni minni.

Hvíldu í guðs friði.

Þangað til við hittumst næst, elska þig elsku afi minn,

Hrafnhildur Ása Karlsdóttir.