Minning: Pétur G. Sæmundsson
Jæja elsku pabbi minn, það tók ekki langan tíma fyrir svona hraustmenni eins og þig að lúta í lægra haldi fyrir þeim veikindum sem þú varðst fyrir. Þetta er sorglegt því ég hélt alltaf að þú myndir deyja úr elli frekar en sjúkdómi.
Þegar ég horfi til baka kemur upp í huga minn skipstjóraferill þinn sem og hversu góður tryggur eiginmaður, faðir og afi þú varst. Þú fiskaðir ávallt af lagni, aldrei kröftum, sama hvaða veiðarfæri átti við varstu fengsæll og ákaflega farsæll skipstjóri. Loðnunótin var þitt uppáhald og ég var svo heppinn að fá að vera með þér á togara og síðan á nótaveiðum. Þetta eru góðar minningar og ég man þegar við vorum að nálgast flotann á loðnunni, þá var aldrei kallað klárir fyrr en torfan var allt að því undir bátnum eða þegar þú varst að troða þér inn í þvöguna klár til að kasta nótinni. Ég dáðist að þér og strákarnir líka, þú varst klár nótakall og það verður ekki af þér tekið. Það var alveg sama hvað gekk á, þú varst alltaf yfirvegaður og flottur. Það sem maður leit upp til þín pabbi minn.
Á seinni árum eftir að þú hættir með Þórshamar fékkstu þér trillu og rérir á færi eða línu og beittir sjálfur í landi. Þetta gera bara jaxlar og svo hafðir þú sérstaka hæfileika í að leysa af á loðnuvertíðum sem skipstjóri á loðnubátum af öllum stærðum. Þú varst sérstaklega handlaginn og góður smiður og sést það best á bátnum Bjarma sem þú og Pétur bróðir tókuð í gegn og það var gaman fyrir þig að sjá hann fara á flot áður en þú yfirgafst okkur, snilldar smíði hjá ykkur feðgum. Bústaðurinn, sælureitur ykkar mömmu smíðaðir þú sjálfur með aðstoð þeirra sem stóðu þér næst, þar var vandað til verks. Ég man þegar ég spurði þig hvar þú hafir lært að smíða var svarið: „Handtökin lærði ég af afa.“ Sumarbústaðurinn var stór partur af ykkar lífi og þar leið fjölskyldunni vel. Það var alltaf gaman að koma til ykkar í sveitina, þvílík gestrisni og gersemar hjá ykkur hjónum. Það var mikið hlegið þegar við hittumst öll í bústaðnum og aldrei tókstu þig of alvarlega þegar gert var grín að einhverju sem snéri að þér. Það var mikill gestagangur enda gott að vera þar. Nágrannarnir í bústaðnum voru ekki af verri endanum og það var góður vinskapur þar á milli sem þér og mömmu þótti vænt um.
Það var unun að sjá þig og mömmu dansa - hvað þið voruð glæsileg. Þið voruð heppin að hitta hvort annað. Ég veit að það eru margir Færeyingar sem syrgja góðan mann. Þú varst sérstaklega vinsæll þar og áhöfnin á skútunni Jóhönnu mun örugglega eftir að skála fyrir þér. Þeir sömdu svo falleg ljóð um þig sem Jói frændi kom með frá Færeyjum. Já pabbi, þetta eru erfiðir tímar og ég gæti skrifað í nokkra daga enda af svo miklu að taka en minningin er góð um frábæran mann. Ég veit að Gulli tekur vel á móti þér og mun ykkur ekki leiðast. Þú getur verið pollrólegur því við hugsum vel um mömmu og ekki má gleyma Halla bróður þínum, þeim góða manni sem er að missa sinn besta vin.
Þinn sonur
Jón.