Minni vinna fyrir unglingana
Fyrir stuttu lagði undirritaður fram fyrirspurn um Vinnuskóla Reykjanesbæjar. Spurningar og svör má sjá í heild sinni á heimasíðu Reykjanesbæjar í fundargerð bæjarstjórnar frá 21. júní, 9. mál. (www.reykjanesbaer.is). Tilgangur fyrirspurnarinnar var að varpa ljósi á stöðu mála en undirritaður hefur að undanförnu orðið var við mikla óánægju foreldra með sífellt minna vinnuframboð á vegum Vinnuskólans. Í svari sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar lagði fram á síðasta bæjarstjórnarfundi kom ýmislegt athyglisvert fram.
Minna vinnuframboð
Vinnuskólinn er ætlaður unglingum sem lokið hafa 8., 9. og 10. bekk og í svarinu fæst staðfest að vinnuframboð hefur minnkað mikið undanfarin ár. Nemendur í 8. bekk gátu á árinu 2002 unnið að hámarki 96 stundir, 9 .bekk 256 stundir og 10. bekk 256 stundir eða alls 608 stundir. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur þetta framboð minnkað mikið og í sumar er vinnuframboðið meira en helmingi lægra en fyrir 3 árum eða 264 stundir alls. Það skiptist þannig að nemendur úr 8. bekk geta nú aðeins unnið 40 stundir, 9. bekk 96 stundir og 10. bekk 128 stundir.
Nemendafjöldi nokkuð stöðugur
Hlutfall nemenda í Vinnuskólanum, af heildarfjölda í árgöngunum, hefur hins vegar verið nokkuð jafnt, í kringum 75% en í ár er hlutfallið þó lægra eða 60%.
Laun óbreytt.
Fleira athyglisvert kom fram í svari bæjarstjóra. Meðal annars að laun til unglinga í Vinnuskólanum hafa ekkert hækkað frá árinu 2002. Samkvæmt þessu er ljós að Vinnuskólinn er einn af þeim málaflokkum sem hafa orðið fyrir barðinu á meirihluta sjálfstæðismanna og taka þarf á eftir næstu kosningar.
Kjartan Már Kjartansson
bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins
[email protected]