Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Minna mas - meiri kyrrð!
Sunnudagur 17. febrúar 2013 kl. 12:16

Minna mas - meiri kyrrð!

Fór á fyrirlestur í vikunni um  guðsþjónustuna - hvernig hún gengur fyrir sig, tákn trúarinnar og hina ýmsu kirkjusiði. Þá var talað um að það gerðist eins og að sjálfu sér að fólk hagaði sér vel í kirkju og ekki færi vel á því að vera að masa mikið í þessum helgidóm þar sem við þurfum að fá frið til að vera með bænir okkar og hugsanir.

Mér var hugsað til einkunnaspjalda minna úr grunnskóla en í athugasemdum stóð oftar en ekki: Anna Lóa er masgefin. Ég hef alveg verið meðvituð um þetta en með aldrinum hefur mér tekist að hemja málstöðvarnar eilítið og kann því meira að segja ágætlega að þegja við og við. Ég gekk meira að segja svo langt að fara á kyrrðardaga í Skálholti fyrir tveimur árum - en það kom nú í ljós þegar ég mætti þangað að ég hafði aðeins misskilið þetta með kyrrðina. Ég sá fyrir mér ró og næði í yndislegu umhverfi, svona kósý sumarbústaðastemning já.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kyrrðardagarnir áttu að byrja um kvöldmatarleytið á fimmtudegi en þar sem ég var að kenna zumba það kvöld mætti ég of seint upp í Skálholt. Þið verðið að sjá þetta fyrir ykkur; ég brunaði með salsatónlistina í botni austur fyrir fjall, tók bílasveiflu svona rétt eins og þeir félagar í Nigth at the Roxbury. Skransaði inn afleggjarann á þessum fallega sögustað Íslendinga, greip litlu ferðatöskuna, tölvuna og sódavatnið, dinglaði mjöðminni í bílhurðina sem lokaðist og skokkaði að ,,bústaðnum“. Þar mætti mér námskeiðshaldarinn sem vill til að ég þekkt og því hrópaði ég  ,,nei hæææææ“ um leið og ég knúsaði hana. Hún bauð mig velkomna en hálf hvíslaði svo  ,,Anna Lóa mín, nú erum við komin í kyrrðina okkar svo ekki búast við að aðrir heilsi þér hér í kvöld. Þú veist að við tölum eiginlega ekkert saman hér á kyrrðardögum“?

Ég missti andlitið en gat ekki viðurkennt á þessari stundu að ég hafði kannski ekki alveg lesið allar upplýsingarnar um námskeiðið. Ég fékk pínu samviskubit þegar ég sagði ekki alveg satt á þessum heilaga stað og segi ,, jú auðvita veit ég það, bara yndislegt“.  Mér var síðan vísað til herbergis og þegar ég var orðin ein ákvað ég að njóta þess bara að slappa af og gera ekki neitt....... í nokkrar mínútur.

Þegar ég var búin að þegja og slaka á í nokkrar mínútur ákvað að kíkja aðeins í tölvuna því þar biðu mín nokkur hundruð vinir sem ég þurfti að sinna. Ég hafði tekið með mér netlykil og þrátt fyrir að ég vissi að það væri ekki ætlast til að maður væri nettengdur á kyrrðardögum hugsaði ég með mér að það gæti nú ekki skaðað að tékka aðeins á lífinu þarna úti. Ég opnaði tölvuna og náði í kassann með netlyklinum en Guð sér um sína, kassinn var tómur og ég leit ósjálfrátt upp til himins og sagði ,,já já ég skil“.

Til að gera langa sögu stutta þá hef ég sjaldan upplifað jafn mikla orku og einmitt þarna í kyrrðinni. Það gerðist eitthvað stórkostlegt þessa helgi og ef ég ætti að setja það í eina setningu þá væri hún ,,ég lærði að hlusta á hjartað mitt“. Orkan sem ég fann fyrir einkenndist af innri frið og dýpt sem ég hef sjaldan upplifað.  Að vera laus við að ,,þurfa“ að tala og geta leyft sér að vera einn með sjálfum sér og hugsunum sínum var eitthvað sem gerði mér gott.
Eftir kyrrðardagana hef ég oft nýtt mér þetta að leita inn á við og hlusta á hjarta mitt. Áreitið er mikið í lífi okkar flestra og mun auðveldara að fylla upp í rýmið með orðum eða athöfnum í stað þess að leyfa okkur bara að vera og hlusta á hvað lífið er að segja okkur.

Minna mas - meiri kyrrð, er eitthvað sem ég mæli með í smá skömmtum.  Alls ekki misskilja mig, ég hef enn mikla þörf fyrir að tjá mig og ef það er einhver þarna úti að hugsa: já bíddu, er hún þá orðin þessa þenkjandi, þögla týpa, þá ætla ég strax að leiðrétta það. Ég tala enn mikið og oft áður en ég hugsa og kem örugglega til með að halda athugasemdinni  ,,masgefin“ ævina á enda!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid