Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Milljarðurinn sem er ekki til
    Hluti Reykjanesbæjar.
  • Milljarðurinn sem er ekki til
Föstudagur 28. nóvember 2014 kl. 09:05

Milljarðurinn sem er ekki til

Margeir Vilhjálmsson skrifar.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Samfylkingarmenn í Reykjanesbæ voru fyrstir að átta sig og hafa fyrir margt löngu þvegið hendur sínar af því að hafa verið þátttakendur í gjörningi sem í dag mætti flokka undir eitt heljarinnar flopp. Með 10 atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var samþykkt að selja fasteignir Reykjanesbæjar inn í Eignarhaldsfélagið Fasteign (EFF) árið 2003. Í Fréttablaðinu fyrir réttum 11 árum mátti lesa fyrirsögnina: „Bæjarsamstæðan snýr tapi í hagnað“. Í fréttinni kemur fram tilkynning frá Reykjanesbæ: „Þessi staða skýrist nær einvörðungu af söluhagnaði af flutningi eigna yfir til Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. sem Reykjanesbær er aðili að.“ Líkast til hefði verið hreinlegast að kalla þetta bókhaldsbrellur.

EFF byggði í framhaldinu nýjar og glæsilegar byggingar fyrir Reykjanesbæ sem sómi er að. Akurskólq, innisundlaug, íþróttaakademíu og svo mætti lengi telja. Allt með tilheyrandi kostnaði góðærisáranna, tekið á leigu inn í framtíðina. Á þessum tíma var í tísku að nota fasteignafélög sem voru „sérfræðingar“ í uppbyggingu og viðhaldi fasteigna. Í Hruninu svonefnda fóru öll þau helstu í þrot og ný urðu til. Það sem áður voru Stoðir, Landsafl og Eik  eru nú Reitir og Reginn.
EFF fór í gegnum sína endurskipulagningu um áramótin 2012-13. Íslandsbanki, Háskólinn í Reykjavík, Garðabær og hið gjaldþrota Álftanes drógu sig út úr félaginu. Við endurskipulagninguna varð Reykjanesbær stærsti eigandinn með ríflega 55% eigna og  tapaði öllu hlutafé sínu. Á móti lækkuðu leiguskuldbindingar og endurkaupaverð fasteigna bæjarins var lækkað verulega í samningunum. Leigutími allra samninga var samræmdur í 27 ár.  Reykjanesbær tók á sig viðhald utanhúss. Leigugreiðslur lækkuðu í 600 milljónir í 2 ár (2013 og 2014), en verða svo að jafnaði um milljarður á ári næstu 5 árin þar á eftir (2015 -2019).

Í skýrslu Haraldar Líndal „Úttekt á rekstri Reykjanesbæjar og tillögur“ kemur fram að leiguskuldbindingar Reykjanesbæjar séu 13.660.000.000 (hraðlesist þrettán og hálfur milljarður). Samanlagðar skuldbindingar vegna Reykjaneshafna og EFF eru því tuttugu milljarðar eða helmingur af öllum skuldum bæjarfélagsins. Sá sem heldur því fram að leysa megi þann vanda með launalækkun nokkurra bæjarstarfsmanna undir dulnefninu „Blönduð leið“ er ekki með öllum mjalla. Að bæta svo í það 5% launalækkun á bæjarfulltrúa er sorglegt yfirklór. Bæjarbúar vita að á árinu 2013 kostuðu veikindi starfsmanna Reykjanesbæjar jafn mikið og laun bæjarstjóra, bæjarstjórnar og bæjarráðs samanlagt eða 50 milljónir. Mætti ég þá frekar mæla með góðu heilsuátaki.

Milljarðurinn sem greiða á til Fasteignar á árinu 2015 er ekki til. Það er alltaf miður þegar skuldunautar geta ekki staðir við skuldbindingar sínar. Sú staðreynd að Reykjanesbær, stærsti einstaki hluthafinn innan EFF, geti ekki staðið við skuldbindingar sínar á næstu árum mun að öllum líkindum ganga að félaginu dauðu. Ekki hafa þau sveitarfélög sem eru meðeigendur Reykjanesbæjar í EFF heimild til að hlaupa undir bagga inni í félaginu.  
EFF er sértakt fasteignafélag að því leyti að það var stofnað utan um mjög sérhæfðar fasteignir líkt og leikskóla, skóla, íþróttamannvirki, banka eða jafnvel samgöngumannvirki.  Markaður með svo sérhæfðar fasteignir er ekki stór. Ætli það sé mikil eftirspurn á markaði eftir skóla- eða íþróttahúsnæði í Reykjanesbæ? Hvers virði eru Myllubakka- eða Holtaskóli ef Reykjanesbær vill ekki kaupa skólana eða greiða fyrir þá leigu? En Vatnaveröld? Staðreyndin er sú að allar þessar eignir eru verðlausar sé Reykjanesbær ekki tilbúinn að borga. Það er áhættan sem EFF tók með því að kaupa allar fasteignir af Reykjanesbæ á sínum tíma. Nú þarf að semja að nýju því milljarðurinn er ekki til.

Nýrrar sýnar meirihluti Reykjanesbæjar virðist vera staurblindur. Hann er í dauðafæri að fella helstu grýlu Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ undanfarin 12 ár; Eignarhaldsfélagið Fasteign. Hver sagði: Kjósum ábyrgð, kjósum festu, kjósum kjark? Það þarf ekki sérfræðing í endurskipulagningu skulda. Það er nóg að hætta að borga.

En hvað er gert?
Bakari er hengdur fyrir smið.

Áfram Keflavík,
Margeir Vilhjálmsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024