Milli hátíða
Aðventan er skemmtilegur tími í aðdragandi jóla. Jólaljós og tónleikar takast á við skammdegismyrkrið og gera aðventuna að stórkostlegri upplifun og menningarveislu. Í skólum landsins eru komin jólafrí þar sem nemendur og starfsfólk geta slakað á, glaðst yfir árangri annarinnar og undirbúið sig undir þá næstu. Til sjávar og sveita er unnið eins og aðra daga við að draga björg í bú með þeim árstíðarsveiflum sem fylgja nýtingu náttúruauðlinda. Í umönnunarstörfunum er hver dagur öðrum líkur óháð árstíma þar sem unnin eru kraftaverk á hverjum degi. Misjöfn eru mannanna verk og ólík eru störfin en allir skila sínu.
Á Alþingi er hefð fyrir því að afgreiða fjölmörg mál á síðustu dögum þingsins með þeim hætti eins og enginn sé morgundagurinn. Fyrir utan fjárlög sem nauðsynlegt er að afgreiða eru mörg mál sem koma alltof seint fram og fá litla skoðun, keyrð í gegn af meirihluta þingsins. Stór mál sem smá sem mörg hver þyrftu nánari og betri undirbúing. Þetta árið er ekki öðrum betra hvað það varðar. Þssu verklegi verður að breyta.
Á sama tíma er rétt að líta um öxl og velta fyrir sér liðnu ári. Hvað hefur gengið vel og hvað hefði betur mátt fara. Ársins 2011 verður ekki minnst vegna veðurblíðu né óveðra. Hinsvegar minntu náttúröflin okkur enn á hvar við búum og hversu vanmegnug við erum gagnvart þeim. En um leið koma þjóðareinkenni okkar um samstöðu og samkennd gagnvart þeim sem fyrir tjóni verða fram á sinn besta hátt.
Engin jól án Icesave
Á sviði stjórnmálanna er hinsvegar lítið um samstöðu. Það tókst þó með atbeina forseta lýðveldisins og fólksins í landinu að snúa ríkisstjórninni frá villu síns vegar í Icesave málinu og síðan þá hefur efnahags- og viðskiptaráðherra Árni Páll Árnason barist með kjafti og klóm fyrir hagsmunum Íslands og haft verulegt samráð um þá vinnu. Nú hefur ESA stefnt Íslandi fyrir EFTA dómstólnum vegna meintra vanefnda á EES samningnum. Ekkert er að óttast í þeim efnum. Við höfum góðan málstað að verja. Innistæðueigendur í Hollandi og Bretlandi fengu meira greitt en lágmarksupphæð samkvæmt tilskipun ESB. Enginn þjóð – allra síst ofurskuldsettar þjóðir Evrópu – vill að ríkisábyrgð sé á skuldum einkabanka. Þó svo við töpum málinu fyrir EFTA-dómstólnum fer það ekki neitt því Bretar og Hollendingar þurfa að sanna tjóns sitt og sækja skaðabætur fyrir íslenskum dómstólum. Við getum því haldið heilög jól og áramót án áhyggja af þessari alþjóðadeilu.
Fjárlög og framtíð
Því miður bar ríkistjórnin ekki gæfu til að hlífa heilbrigðisstofnunum í fjárlögum 2012. Suðurnesjamenn þurfa því enn og aftur að sætta sig við að þjónustan verði skert og dýrara verði að sækja þjónustuna til Reykjavíkur. Við Framsóknarmenn börðumst hart gegn þessum áformum en urðum að lúta í gras fyrir stjórnarmeirihluta Samfylkingar og VG. Þegar þetta er ritað er ekki vitað hver niðurskurðurinn verður á HSS því við loka afgreiðslu fjárlaga fékk velferðarráðherra um 77 milljónir til að lina niðurskurðarkröfu á einstaka stofnanir. Mikilvægt er að HSS fái hlut í þeim fjármunum til að geta haldið áfram að þjónusta Suðurnesjamenn og byggja upp þverfaglega teymið sem þjónustar þá sem orðið hafa fyrir afleiðingum langtímaatvinnuleysis.
Löngu er tímabært að breyta vinnulagi við fjárlagagerð. Á næsta ári verður að leggja til grundvallar, við ákvörðun um fjárlög, hver grunnþjónustu þörfin er og verja hana með kjafti og klóm.
Næsta ár getur hinsvegar ef vel verður á málum haldið orðið ár raunverulegs viðsnúningar með atvinnusköpun, fjárfestingum í atvinnulífinu og bjartsýni. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar bæði til sjávar og sveita. Möguleikar Suðurnesja eru einna mestir á landinu – mörg verkefni eru í pípunum. Ríkisstjórnin þarf að vinna með atvinnulífinu og sveitarfélögunum að verkefnunum. Vilji er allt sem þarf.
Sigurður Ingi Jóhannsson
alþingismaður