Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miklu meira en nóg til af orku fyrir álver í Helguvík
Föstudagur 14. júní 2013 kl. 08:38

Miklu meira en nóg til af orku fyrir álver í Helguvík

Mikið hefur verið fjallað um álver í Helguvík í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum að undanförnu. Slíkt..

Höf: Guðmundur Pétursson, formaður Samtaka atvinnurekenda á Suðurnesjum

Mikið hefur verið fjallað um álver í Helguvík í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum að undanförnu. Slíkt er eðlilegt þegar um er að ræða mikilvægustu nýframkvæmd til eflingar atvinnulífs og þjóðartekna hér á landi á næstu árum. Talsverð umræða hefur spunnist um orku til álversins og sumir hafa jafnvel haldið því fram að næg orka sé ekki fyrir hendi. Sú fullyrðing stenst engan veginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Álver í Helguvík, sem framleiðir 180.000 tonn á ári, notar um 300 MW af orku. Eins og forstjóri HS Orku hefur bent á, liggja um 100 - 200 MW af orku ónýtt í kerfinu. Hér er átt við orku sem viðkomandi orkufyrirtæki geta selt strax án nokkurra nýrra fjárfestinga. Ef við göngum út frá því að um 150 MW séu þegar á lausu, þarf því einungis önnur 150 MW til viðbótar til að koma álverinu í gang.

Helmingur af orkunni er sem sagt til reiðu fullvirkjaður - orku sem getur skapað þjóðarbúinu milljarða tekjur á hverju ári í stað þess að renna ónýtt til sjávar eða gufa ónýtt upp í andrúmsloftið. Samkvæmt fyrirliggjandi útgáfu af rammaáætlun samsvara þau 150 MW sem á vantar um 20% virkjanlegrar orku í nýtingarflokki á Suðurlandi. Sé horft á nýtingarflokkinn og biðflokkinn sem eina heild eru þetta um 11% virkjanlegrar orku á Suðurlandi. Þess má geta að auk nýrra virkjana er verið að skoða ýmsa möguleika til stækkunar núverandi virkjana. Til dæmis er fyrirhugað að stækka Reykjanesvirkjun um 70-80 MW eða sem nemur helmingi þess sem upp á vantar. Þar stendur 50MW túrbína inni á gólfi og bíður þess að fara að framleiða gjaldeyri.

Mikilvægt er að undirstrika að íslenskar orkulindir, eins og við höfum nýtt þær, eru endurnýjanlegar. Því er það svo að ef ákveðið er að hagkvæmt sé að virkja tiltekinn stað frá sjónarhóli nýtingar og umhverfis, hefur það enga þýðingu að bíða. Það er bara glatað tækifæri og glötuð verðmæti fyrir okkur sem búum í þessu landi og fyrir afkomendur okkar. Eins og formaður félags eldri borgara benti á, getum við ekki gefið niðjum okkar betri gjöf en skuldlaus orkuver sem leggja samfélaginu til verðmæti til góðrar afkomu og nýrrar atvinnusköpunar um langa framtíð.

Flest bendir til þess að ágætis verð fáist fyrir orku til álversins í Helguvík. Fyrr á árum var orkuverði stillt upp sem aðdráttarafli gagnvart þeim sem vildu að reisa álver á Íslandi. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og nú er staðan sú að menn eru reiðubúnir að leggja í slíka fjárfestingu hér á landi þrátt fyrir orkukostnaðinn. Ein meginástæða þess að fýsilegt þykir að reisa álver á Íslandi í dag er sú að hér er til fólk sem kann að hanna og byggja nútímaleg álver og fólk sem kann að reka álver betur en flestir aðrir. Hér á landi hefur m.ö.o. orðið til mjög verðmæt sérþekking á þessu sviði.

Frá hnattrænum umhverfissjónarmiðum er margfalt umhverfisvænna að reisa álver á Íslandi en t.d. í Miðausturlöndum eða Kína þar sem mengandi jarðefnaeldsneyti er orkugjafinn. Hvergi í heiminum er ál framleitt á umhverfisvænni, öruggari og hagkvæmari hátt en hér á landi. Engin álver í heiminum nota hreinni orku en þau íslensku og engin álver eru undir strangari kröfum um losun gróðurhúsalofttegunda en álverin íslensku.

Bygging álvers í Helguvík og síðar reksturinn munu færa til landsins mikið magn af erlendum gjaldeyri og auka hagvöxt. Álverið mun blása nýju lífi í atvinnustarfsemi hér á Suðurnesjum og draga stórlega úr atvinnuleysi á svæðinu. Það mun einnig stuðla að endurheimt iðnaðar á Suðurnesjum s.s. vélsmiðja og rafverktaka, og efla starfsemi margs konar annarra verktaka- og þjónustufyrirtækja, bæði á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Bæði þessi svæði fá þannig gríðarlega innspýtingu með tilkomu álversins. Síðast en ekki síst mun álverið styðja við menntun á Suðurnesjum og tækifæri fólks með mismunandi bakgrunn til að fá vinnu við sitt hæfi.

Samstaða er eitt af lykilorðum okkar hjá Samtökum atvinnurekenda á Suðurnesjum. Undir þeim formerkjum hvetjum við alla Suðurnesjamenn til að standa einhuga að þessu stóra hagsmunamáli sínu.