Miklir brunar í San Diego þörf áminning
Í Bandaríkjunum verður árlega gríðarlegt eigna- og umhverfistjón af völdum skógarelda. Skógareldar eru einnig orsök fjölda manntjóna þar. Mér er málið skylt þar sem ég stundaði nám í slökkviliðsfræðum og bjó í Kaliforníu fylki n.t.t. í norðurhluta San Diego-sýslu, í Oceanside, þar sem skógareldar geysa nú og hafa engu hlíft. Skyldfólk okkar, hjón og þrjú börn, eru meðal þúsunda fórnarlamba sem misstu heimili sín í bruna í Fallbrook, sem er 45 um þúsund manna bæjarfélag staðsett innar í landinu, eða um 25 kílómetra frá ströndinni.
Þrátt fyrir gott Neyðarskipulag Kaliforníu fylkis og öflugt viðbragð slökkviliðs og lögreglu, hafa fjöldi manns slasast og tala látinna er komin á annan tug. Þúsundir heimila eru brunnin og yfir ein milljón hafa þurft að yfirgefa heimilin vegna hættuástands. Áætlað er að á annað hundrað þúsund hektara landsvæðis sé brunnið. Samkvæmt fjölmiðlum San Diego-sýslu http://www.nctimes.com/ er ljóst að slökkviliðin hafa ekki náð stjórn á eldunum, enda engir eldar eins “ógurlegir” og erfiðir viðfangs eins og skógareldar.
Eldtungur hafa teygt sig í allt að 70 metra hæð, en til samanburðar er hæð Hallgrímskirkju 77 metrar, og þegar umhverfið og orkan í eldhafinu er slíkt, skapar eldurinn sér sitt eigið umhverfi og breytir jafnvel veðurfari, uppstreymi lofts um rætur eldsins verður gríðarlegt og breytir “veðurfars vindáttum” þannig að eldurinn fer sína eigin leið, og í þá átt sem “aðstæður” eru bestar. Þetta er ótrúleg sjón og engin sem ekki hefur séð þetta trúir þessum “krafti” eldhafsins. Í þessari hitauppbyggingu sem er gríðarlega hröð, kviknar hver “yfirtendrunin” á fætur annarri (undir berum himni), en þetta kalla slökkviliðsmenn þar “Fire-storm.” – Yfirtendrun er í raun ekkert annað en að frá ófullkomnum brunum myndast óbrunnin en brennanleg gös og þegar gösin ná kjörhita (blossamarki) myndast mjög hraður bruni (hæg sprenging) í gösunum sem veldur því eldurinn dreifir sér á ógnarhraða og er nánast óútreiknanlegur.
Í fréttaumfjöllun fjölmiðla þar birtist mynd af stóru gili þar sem allt gilið, ásamt tveim fjallshlíðum, logaði samstundis á nokkrum mínútum. Samanburður Íslands og Kaliforníu er athyglisverður. Í Kaliforníu búa um 30 milljónir; áætlað má að allt sé um hundrað sinnum stærra í Kaliforníu. Fjöldi slökkviliðsmanna þar, þegar ég var í námi, var á þriðja hundrað þúsund. Athyglisvert er að um 70 þyrlur, þrjár tankvélar ásamt fjöldanum af slökkviliðsbifreiðum allskonar, eru að berjast við elda. Almannavarnarskipulag Kaliforníu er þaulreynt og mjög öflugt, skipulagið gerir ráð fyrir að fylkinu sé skipt upp í sex sjálfstæð svæði sem hvort um sig styrkir heildarskipulagi.
Frá fréttasíðum þaðan t.d. http://www.cbs8.com/ og http://www.nctimes.com/ eru upplýsingar uppfærðar reglulega og vísað í marga tengla. Myndir segja mörg orð og á þessum síðum má finna bæði video myndir sem og venjulegar myndir af ástandinu, sem nú er farið að verða viðráðanlegt, “vonandi”.
En skyldi stjórnvald Brunamála þ.e. sveitafélög/slökkvilið og Brunamálastofnun vera reiðubúin að mæta slíku útkalli. Ekki fer á milli mála að gróðurfar hér hefur breyst svo um munar. Mun meira er af trjám í þéttbýli og töluverð ræktun er í gangi, svo ekki sé minnst á að ríkið hvetur til trjáræktar með “greiðslum”. Fjöldi sumarbústaða er mikill og flest sumarbústaðalönd mjög þéttu kjarri vaxin og ábyggilega mörg hús á “kafi” í trjám. Mörg hús og hverfi í þéttbýlinu eru einnig “kaffærð” í trjám. Skyldu bygginga- og skipulagsnefndir sveitafélaga taka til greina þessa áhættu t.d. að ákveða hvar og hvernig tré megi rækta; gera ráð fyrir aðkomu slökkviliðs þ.e. að þung tæki eins og t.d. slökkviliðsbílar og tankbílar geti komist um svæðið og slökkt eða amk. heft útbreiðslu elda?
Ekki er langt síðan að eldar á Mýrum loguðu stjórnlaust og um 6000 hektarar brunnu stjórnlaust. Mýrareldar eru kannski ekki sambærilegir þeim sem nú loga í Kaliforníu; en eitt er víst að mikið umhverfistjón varð og með dálítilli heppni, vaskri framgöngu bænda og annarra undir stjórn slökkviliðsins, varð ekki manntjón eða eignatjón. Ljóst er að slökkviliðin og brunavarnir hér á landi eru almennt ekki undir þessi útköll búin, en hvað skyldi framtíðin bera í skauti sér?
Sigmundur Eyþórsson
slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja