Mikilvægt að allir klári nú sitt í álveri
– þá skapast 1500 störf strax eftir áramót!
Við erum ekki þekkt fyrir að gefast upp. Við höfum áður fengið á okkur brotsjó, haldið lífi, komið reyndari og sterkari út úr því.
Það eru aðeins tvö ár síðan Varnarliðið hvarf af landi brott og stærsta höggið fengum við hér í Reykjanesbæ. Það herti okkur í róðrinum eftir öruggum og vellaunuðum störfum. Við sýndum fram á að hér var besta aðstaða til byggingar álvers. Við fengum ekki alltaf góðar viðtökur stjórnmálamanna í þeirri baráttu. En við gáfumst ekki upp.
Barátta okkar hefur skilað því að nú er verkið tilbúið einmitt þegar næsta holskefla ríður yfir þyngri og alvarlegri en sú fyrri. En við eru undirbúin.
Framkvæmdir við álver í Helguvík eru komnar af stað og staða verkefnis þannig að þær geta gefið 1500 manns vinnu nú strax eftir áramót.
Framkvæmdir okkar við Helguvíkurhöfn eru komnar á fullt skrið. Höfnin verður tilbúin undir inn- og útflutning vegna álvers þegar á þarf að halda.
Í ljósi efnahagsástandsins höfum við skoðað hvernig við getum stuðlað að fleiri stöfum við byggingarverkefni í Helguvíkurhöfn. M.a. höfum við ákveðið að í stað þess að kaupa stálþil erlendis frá skuli bryggjukantarnir steyptir. Þetta þýðir mun meiri íslenska framleiðslu og störf við framkvæmdina, en í ljósi gengis gjaldmiðla getur þetta einnig verið hagstæðara fyrir okkur.
Norðurál hefur fullan hug á að flýta framkvæmdum eins og kostur er. Þeir eru einnig tilbúnir að láta þetta gerast í skynsamlegum, samfelldum áföngum. Þannig getur verið hér vinna við uppbyggingu álversins sjálfs, höfnina, línulagnir, virkjanir og þjónustu vegna alls þessa næstu 5 árin fyrir um 1500 manns. Þessi vinna getur nú hafist strax eftir áramót.
Þá þurfa líka allir að leggjast á árar. Reykjanesbær og Garður hafa löngu lokið við samninga um álverið og höfnina, virkjanir og línulagnir í landi Reykjanesbæjar og HS Orkuveita Reykjavíkur gert samning um orkuöflun. Vogarnir hafa klárað sitt. Nú vantar enn að Hafnfirðingar klári samning við Landsnet um línulagnir en mér er tjáð að það sé að gerast. Þá þurfa Grindvíkingar að ganga frá samkomulagi við HS um virkjun í þeirra skipulagslandi svo næg orka fáist til næstu áfanga. Ríkistjórnin er að ganga frá fjármögnunarsamningi og þarf að stuðla að því að Landsvirkjun sé með í orkuöflun til næstu áfanga álversins. Ekki er að sjá að það sé löng biðröð eftir að fjárfesta á Íslandi.
Ef okkur tekst þetta á næstu vikum, er víst að Norðurál ætlar ekki að láta sitt eftir liggja, þrátt fyrir erfitt efnahagsástand í heiminum. Þá fer þetta allt á fulla ferð strax uppúr áramótum.
Gerum okkur samt grein fyrir að ef áfram er hik á þeim sem eftir er að semja við, er óljóst hvort Norðurál treystir sér til að halda áfram af fullum krafti. Ef tafir verða á leyfum til að virkja, þá tefjast næstu áfangar álvers og vinna fellur niður, sem kallar á endurskoðun Norðuráls gagnvart allri framkvæmdinni.
Suðurnes eru eitt atvinnusvæði. Ég treysti á að við forsvarsmenn sveitarfélaganna á Suðurnesjum sjáum öll til þess að engar tafir verði héðan í frá af okkar hendi.
Þorsteinn Erlingsson,
skipstjóri, formaður Atvinnu- og hafnaráðs Reykjanesbæjar.