Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mikilvægi þess að róa í sömu átt
Fimmtudagur 11. nóvember 2010 kl. 14:14

Mikilvægi þess að róa í sömu átt

Ríkisstjórnin hélt ríkisstjórnarfund sinn í vikunni í Víkingaheimum í Reykjanesbæ eins og kunnugt er. Ég tel mjög jákvætt að ríkisstjórnin sé búin að átta sig á því að Suðurnesin glími við það vandamál að hér sé bágt atvinnuástand. Ég tel líka mjög jákvætt að þarna sannast að barátta heimamanna fyrir að ná athygli og eyrum ríkisstjórnarinnar hefur skilað árangri. Menn funduðu, menn ræddu málin, 10 atriða listi var settur fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og það er líka jákvætt. Eftir fundinn lögðu fundarmenn áherslu á að allir væru í sama bátnum og að nú ættu allir að róa í sömu átt. Það er líka jákvætt.


Ég tók hins vegar eftir því að á þessum 10 ára atriða lista voru nánast engin þeirra verkefna sem heimamenn á Suðurnesjum hafa lagt hvað mesta áherslu á og það eru þau verkefni sem við vitum öll að mestur ágreiningur hefur verið um. Þessi verkefni eru ekki sérstaklega nefnd á listanum. En það getur verið að það sé líka jákvætt, þá þýðir það a.m.k. að ekki sé búið að slá þau út af borðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Til að taka af allan vafa varpaði ég þeirri spurningu fram við þingmenn og ráðherra ríkisstjórnarinnar á Alþingi í gær hvort það sé ekki örugglega þannig að fjarvera þessara verkefna á lista ríkisstjórnarinnar þýði einfaldlega að verkefnin séu í ákveðnum farvegi og að ríkisstjórnin sé einhuga að baki heimamönnum – í sama bátnum og rói nú í sömu átt með heimamönnum – í þá átt að klára þessi verkefni og koma þeim í höfn. Þetta eru verkefni sem gefa vel launuð og varanleg störf, álverið, gagnaverið, fleiri en eitt kísilver, ECA-flugverkefnið, uppbygging Helguvíkurhafnar, stuðningur við fiskvinnslu á svæðinu, stuðningur við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, stuðningur við Keili sem menntastofnun. Svona mætti lengi telja.

Ég fékk ekki skýr svör frá þeim stjórnarþingmönnum sem tóku þátt í umræðunni og mun því halda áfram að spyrja. Er það ekki örugglega þannig að ríkisstjórnin ætli að róa með heimamönnum í sama bátnum í sömu átt og hjálpa okkur við að klára öll þessi verkefni og koma atvinnumálum á Suðurnesjum í farsælt horf?