Mikilvægi menntunar í sjávarútvegi
Eins og flestum er kunnugt hefur Fisktækniskóli Íslands í Sandgerði það hlutverk að mennta fólk í sjávarútvegi að loknum grunnskóla og býður ungu fólki á Suðurnesjum og víðar upp á nám á framhaldskólastigi á sviði veiða, vinnslu og fiskeldis. Námið er tveggja ára nám í fisktækni og enn fremur er hægt að sérhæfa sig í veiðafæratækni, gæðastjórnun, fiskeldi og vinnslutækni (í samvinnu við Marel) með því að taka þriðja árið.
Skólinn er í samstarfi við aðra framhaldsskóla á landinu sem og fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum og hefur á síðustu árum útskrifað fjölda fisktækna og sérhæfða fiskeldisstarfsmenn um allt land. Skólinn býður ennfremur upp á ýmis námskeið í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar um allt land og nægir að nefna sérhæfingu í fiskvinnslu sem og HACCP-námskeið og síðan er boðið upp á smáskipanám á báta fimmtán metra og styttri sem og vélstjórn 750 KW og er aðsókn góð.
Þýðing Bláa hagkerfisins fyrir íslenskt samfélag.
Það er kunnara en frá þurfi að segja hversu gríðarlega mikilvægur sjávarútvegurinn, fiskvinnslan og fiskeldið, er fyrir íslenskan efnahag og framtíð landsins. Bláa hagkerfið hefur verið lífæð þessarar þjóðar og mun vera um ókomna tíð, þrátt fyrir óáran og hrun stendur það alltaf upp úr rústunum og kemur okkur á lappirnar aftur, sjávarútvegur í sinni víðustu merkingu hefur verið og mun áfram vera hornsteinn íslensks atvinnulífs. Við flytjum út fiskafurðir til allra heimshorna og á bak við þennan útflutning liggur ótrúleg vinna við markaðssetningu og gríðarmikil þekking sem byggst hefur upp á undanförnum árum og áratugum. Þekking á sviði laga, tækni, flutninga, samskipta og þjónustu sem hefur gert okkur kleift að flytja hina fjölbreyttu flóru fiskafurða á diska neytenda út um allan heim.
Við Íslendingar erum í fremstu röð hvað varðar umhverfisvænar veiðar, sjálfbærni veiða og meðferðar á afla og athygli umheimsins á þessum þáttum í veiðum og vinnslu hefur aukist gífurlega á síðustu misserum. Í raun og sann má segja að þessi atvinnugrein sé á hraðri leið í þá átt að verða hátæknigrein sem kallar stöðugt á sérmenntað fólk til starfa. Hér á Suðurnesjum hafa fyrirtæki verið leiðandi í því að auka verðmæti fiskafurða og nægir að nefna þá miklu aukningu sem átt hefur sér stað í vinnslu ferskra fiskafurða sem fluttar eru daglega flugleiðis austur og vestur um haf frá Keflavíkurflugvelli. Eins má nefna fiskeldið sem er atvinnugrein í mikilli sókn og óvíða eru skilyrði til þess betri en hér á Suðurnesjum og sér fram á mikla uppbyggingu í þeirri atvinnugrein hér á svæðinu.
Mikil eftirspurn eftir þekkingu
Gríðarleg eftirspurn er eftir fólki sem hefur sérhæft sig í þessum greinum sjávarútvegsins og má með sanni segja að framtíðin sé björt hvað varðar vel launuð störf í sjávarútvegi, fiskvinnslu, veiðarfæratækni og fiskeldi hér á Suðurnesjum og gegnir Fisktækniskólinn í Sandgerði lykilhlutverki í því að búa nemendur, jafnt unga sem og þá sem eldri eru undir að starfa í þessu skemmtilega starfsumhverfi. Nemendur sem stundað hafa nám við skólann, sama hvort það er í staðnámi, fjarnámi eða á námskeiðum, eru flestir á einu máli um það að skólinn sé frábær undirbúningur fyrir þá sem hasla vilja sér völl í sjávarútvegs-tengdum störfum.
Menntun er lykillinn að sjálfbærri þróun og friði og stöðugleika innan og meðal þjóða og þar með nauðsynleg leið til virkrar þátttöku í samfélögum og hagkerfum tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Enn geta nemendur skráð sig til náms í skólanum og hvetjum við ungt fólk sem er að leita sér að hagnýtu námi að hafa samband.
Skólaakstur er á Suðurnesjum.
Símanr. 6637786 – Páll Valur.
8957105 – Ásdís Páls.
8959299 – Þórdís Daníels