Mikill er máttur skáldskaparins
Máttur skáldskaparins getur verið mikill. Og gaman er að sjá enn og aftur staðfestingu þess að þegar skáldum tekst vel upp fara lesendur stundum að trúa skáldskapnum og telja hann sannan. Ég heyri að þannig eru sumir sveitungar mínir í Keflavík að lesa nýja skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar, Fiskarnir hafa enga fætur. Ekki sem skáldsögu heldur sem nýtt bindi Sögu Keflavíkur.
Reyndar heyri ég líka að sumir hafi ekki lesið bókina en haldi því samt fram að þarna sé fjallað um veruleikann og á slíkan hátt að þeim líki myndin ekki. Það er furðulegt en jafnframt hlægilegt að heyra. Og sýnir líka hvað máttur skáldskaparins getur verið mikill.
Jón Kalman er án efa orðinn einn okkar stóru höfunda – það þarf ekki að taka orð íslenskra gagnrýnenda fyrir því, nógu margir erlendir hafa haldið því fram á síðustu árum. Og hann mun verða fulltrúi þjóðarinnar í Brasilíu í sumar, honum tókst það sem knattspyrnulandsliðinu tókst ekki; samið hefur verið um útgáfu á svokölluðum „Vestfjarðaþríleik“ hans þar í landi. Verk Jóns eru gefin út víða um lönd, á fjölda tungumála. Hann hefur skrifað þrjár ljóðabækur og nú tíu skáldsögur; sumar þeirra gerast í Dölunum, aðrar á Vestfjörðum, en höfundurinn eyddi unglingsárunum í Keflavík og ég hef beðið spenntur eftir að hann tækist á við þann heim í sögu. Að hann skapaði goðsagnakenndan heim í kringum heimabæ okkar, eins og honum tókst að gera með Búðardal í Sumarljós og svo kemur nóttin. Goðsagnir í sögum rétt eins og tónlistarmenn okkar hafa gert í tónum og textum undanfarna áratugi. Goðsagnaheim úr æskulandinu eins og Guðbergur Bergsson gerði með Grindavík í „Tangasögunum“, Þórbergur Þórðarson með Suðursveit í uppvaxtarþríleik sínum og Halldór Laxness með Mosfellsdal í Innansveitarkróniku. Loksins varð af því að Jón Kalman fór að takast á við Keflavík á slíkan hátt – reyndar einnig með Norðfjörð um leið – og þessum lesanda, sem þekkir höfundarverk hans býsna vel, finnst hafa tekist svo vel til að þetta sé hans besta skáldverk til þessa – og er við býsna góð verk að keppa. Við Keflvíkingar hljótum að fagna því að sjá slíkan heim lifna, innan ramma sem við þekkjum að einhverju leyti, þótt hann gæti aldrei lifað nema sem listræn og skálduð heild.
Höfundurinn hefur látið hafa eftir sér að sagan sé um tuttugu prósent veruleiki, hitt sé skáldskapur. Ætli það séu ekki nokkuð algeng hlutföll í sögum þar sem byggt er á raunverulegum heimi. En Jón Kalman byrjar líka strax í upphafi frásagnar að vinna gegn þeirri upplifun að um sé að ræða einhverja sagnfræði eða sannleika; þess vegna kallast Vogar Stapaþorpið, þar sem sögupersónan Ari ekur Reykjanesbrautina í upphafi bókar, og stóra skiltið með nafni Reykjanesbæjar er orðið blikkandi ljósaskilti. Jökullinn er líka kominn í vesturátt – „heimum má alltaf breyta“ sagði annar snjall rithöfundur um list skáldskaparins og það er einmitt það sem Jón Kalman gerir. Sem sögusvið notar hann Keflavík uppvaxtarára okkar – með varnarliði og frystihúsum, og Keflavík dagsins í dag – með flughóteli og ferðamönnum, til að skapa sinn leiftrandi frjóa, áhugaverða og dramatíska söguheim, kringum örlagasögu einstaklinganna sem eiga í hlut. Hann hreytir þessum heimi á sinn hátt, eins og sagan krefst, en vitaskuld er þetta engin fegurðarsamkeppni sveitarfélaga; höfundur rifjar upp hin stórfurðulegu orð fyrsta forseta lýðveldisins árið 1944, að það gleddi hann að vera „kominn á svartasta stað landsins“. En eins hefur það glatt þennan lesanda að upplifa þessa heillandi Keflavík höfundarins á síðum bókarinnar, og hún er svo sannarlega ekki svört.
Hinn aldni höfðingi Ólafur Björnsson ritaði pistil um bók Jóns Kalmans í Víkufréttir á dögunum og var ekki jafn hrifinn og ég. Skemmtilegt var að sjá að hann virtist hafa hlýtt á upplestur á sögunni sem lestur á sagnfræðiriti, misheppnuðu að hans mati, og vitaskuld á hver og einn að upplifa listina á sinn hátt. Þó var sérkennilegt að sjá talað um aðalpersónuna, Ara, sem Jón Kalman – eins og persóna og höfundur séu einn og sami maður, en gott að sjá staðfestingu á því að höfundinum hefur tekist að skapa óræðan heim sem hver og einn lesandi getur stigið inn í á sinn hátt. Ólafur var sannfærður um að lýsingar á ákveðnu frystihúsi ættu við Litlu Milljón svokallaða – en ég sé alltaf Stóru Milljón fyrir mér! Varðandi ákveðin atriði þar sem dátar af vellinum sækja matvæli í frystigeymslu telur Ólafur átt við geymslu sem Hraðfrystistöðin byggði, en ég sá aftur fyrir mér frystigeymsluna í Stóru Milljón sem herinn leigði einmitt um tíma og var iðulega einhverju úr henni gaukað að starfsfólki þegar vörur voru sóttar. Þannig raðar hver lesandi heiminum saman í höfði sér um leið og hann heyrir eða les, hver með sínum hætti. Og ef lesið er með opnum huga sé ég ekki hvernig á að vera hægt að hrífast ekki – mikið hlakka ég til að lesa seinni hluta verksins.
„Nú fyrst skil ég Keflavík. Hún er í raun eins og hver annar bær á landinu,“ sagði Bubbi Morthens hrifinn við mig á dögunum, eftir að hann hafði lesið Fiskarnir hafa enga fætur í annað sinn. Ég held hann hafi lesið hana einu sinni enn síðan. Þetta er þannig bók. Mjög góð bók sem við Keflvíkingar getum glaðst yfir að eiga svolítið í.
Einar Falur Ingólfsson