Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mikil ólga vegna framboðs Árna Johnsen
Föstudagur 24. nóvember 2006 kl. 10:23

Mikil ólga vegna framboðs Árna Johnsen

Mikil ólga er  á meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins vegna framboðs Árna Johnsen og er óttast að flokkurinn geti skaðast verði  Árni á lista í Suðurkjördæmi í kosningunum í vor. Árni hafnaði í öðru sæti í nýafstöðnu prófkjöri flokksins í kjördæminu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Málið hefur verið rætt á fundum þingflokksins og herma heimildir Fréttablaðsins að víðtæk og hörð andstaða sé meðal þingmanna við að flokkurinn bjóði Árna fram til Alþingis. Meta þeir stöðuna þannig að framboð hans kunni að draga úr stuðningi kjósenda við flokkinn um land allt. Telja þeir óánægjuna það mikla að um geti munað.

Umræðan hefur komist á slíkt stig að þingmenn segja jafnvel farsælla að Árni fari í sérframboð í Suðurkjördæmi – þó hann höggvi í fylgi Sjálfstæðisflokksins þar – heldur en að hætta á að úr fylginu dragi í öllum kjördæmum, segir Fréttablaðið. Komið hefur fram að fólk hafi sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum vegna málsins.

Þá spyr fólk um trúverðugleika og virðingu Alþingis, æðstu löggjafarsamkundu Íslendinga, ef þar tekur sæti einstaklingur sem sýnt hafi af sér slíka siðferðisbresti sem raun ber vitni.

Áhyggjur af máli Árna kraumuðu lengi undir niðri en segja má að upp úr hafi soðið eftir að hann lýsti yfir að lögbrot þau, sem hann hlaut tveggja ára fangelsisdóm fyrir, hafi verið „tæknileg mistök.“ Þótti sú yfirlýsing ekki sýna mikla iðrun og vakti mikla reiði almennings. Haft hefur verið eftir Árna að ummælin hafi verið klaufaleg en hann ætli ekki að víkja.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024