Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mikil og aukin starfsánægja í Sveitarfélaginu Vogum
Miðvikudagur 19. mars 2014 kl. 09:26

Mikil og aukin starfsánægja í Sveitarfélaginu Vogum

– Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga skrifar

Sérkenni fámennra sveitarfélaga felast oft í því að tiltölulega hátt hlutfall íbúanna starfar hjá sveitarfélaginu. Það er því nokkuð sterkt samhengi á milli ánægju starfsfólks og íbúanna almennt. Starfsfólkið getur haft mikil áhrif á þróun samfélagsins og árangur.

Á dögunum fengum við í Sveitarfélaginu Vogum niðurstöður starfsánægjukönnunar sem gerð var á meðal starfsfólks í upphafi árs. Er þetta í annað sinn sem við látum framkvæma slíka könnun þar sem öllum er boðin þátttaka og niðurstöður nýttar til að bæta um betur og gera góðan vinnustað enn betri. Könnunin gefur kost á samanburði við fyrri mælingu og auk þess fáum við samanburð við vísitölu sem þróast hefur frá árinu 2004 og byggir á niðurstöðu fjölmargra fyrirtækja og stofnana frá þeim tíma.

Niðurstöðurnar í ár voru sérstaklega ánægjulegar. Þær sýna glöggt að starsfólk Voga leggur sig fram við að veita bæjarbúum góða þjónustu og er ánægt og metnaðarfullt í störfum sínum.
Á meðal þeirra þátta sem mældir eru eru og búa að baki starfsánægjunni eru ímynd, stjórnun, næsti yfirmaður, samstarf, starfið sjálft og starfsskilyrði.

Stjórnendur í Vogunum fá fyrstu einkunn frá samstarfsfólki sínu sem er mjög ánægjulegt. Það sem skoðað er sérstaklega varðandi stjórnendur er sýn starfsfólks á faglega hæfni og stjórnunarlega hæfni næsta yfirmanns. Það eflir mann í þeim verkefnum sem framundan eru að vita að hverri einingu sé stýrt af færu fólki sem nær að virkja þann auð sem í starfsfólkinu býr. Starfsfólkið er einnig mjög ánægt með samstarfið sín á milli, bæði faglegt samstarf, starfsandann og félagsleg samskipti á vinnustaðnum.  Starfið sjálft og innihald þess mælist mjög hátt og starfsskilyrðin mælast töluvert umfram það sem gerist á hinum almenna markaði.

Í fyrra mældust þessir þættir einnig vel og er ánægjulegt að sjá að þeir stefna enn uppávið. Þær aðgerðir sem ráðist var í í kjölfar könnunarinnar í fyrra var að skoða álag á starfsfólk og hvaða leiðir mætti nýta til að draga úr því. Einn liður í því var að bjóða starfsfólki upp á fyrirlestur um orkustjórnun á sameiginlegum starfsdegi starfsfólks. Upplifun starfsfólks á álagi mælist nú töluvert minni en í fyrra sem við fögnum mjög.

Upplýsingastreymi er mikilvægur þáttur í upplifun fólks á vinnustaðnum og því leggjum við áherslu á að það sé gott. Mælingarnar hafa sýnt að við erum þar enginn eftirbátur annarra en við viljum gera enn betur. Við skoðuðum með hvaða hætti mætti auka upplýsingastreymi og höfum þegar komið á starfsdegi alls starfsfólks einu sinni á ári auk þess sem undirritaður sendir út vikulega/hálfsmánaðarlega pistla með umfjöllun um það sem helst er á döfinni hverju sinni.

Það er mat mitt að með áframhaldandi uppbyggingu og þróun mannauðsmála hjá sveitarfélaginu sköpum við ekki eingöngu eftirsóttan vinnustað heldur öflugra samfélag búunum til heilla.

Ásgeir Eiríksson,
bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024