Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mikið fyrir ekkert
Föstudagur 26. ágúst 2005 kl. 10:49

Mikið fyrir ekkert

Í veðurblíðunni í dag sem þó var með strekkingsvindi sá ég bíl frá lögmannsstofu stoppa fyrir utan matvöruverslun við Hafnargötuna í Reykjanesbæ.  Á hlið bílsins hafði verið áletrað á tveimur tungumálum: ,,Verum sanngjörn.”   Mér brá dálítið því mín reynsla hafði ekki verið sú að kristilegra gilda væri helst að leita úr þeirri átt.

Nú þegar sólin fer að lækka á lofti óttast ég að það sama muni henda íbúðaverðið á höfuðborgarsvæðinu og nágrannabyggðalögum sem hefur aldrei stigið upp jafn hratt og mikið og á síðustu árum, að skammdegið muni bresta á, fyrr eða síðar. 

Sparnaður, nægjusemi, að halda í aurana, að vera duglegur að afla fjárs, er orðið að klisju því í dag græða þeir mest sem húsnæðið eiga og hafa átt það síðustu 3 -5 árin.   Gróðinn er í engu samræmi við eitt né neitt,   auðsöfnunin, óverðskulduð en fært íbúðaeigendum hækkanir sem eru mun meiri en heildartekjur all flestra heimila á sömu svæðum.

Eyðsluseggirnir, þeir sem þó eru skráðir til eigna, geta nú eytt hverri krónu, um hver mánaðarmót í neyslu og persónulegan óþarfa en samt haft ekki undan að telja saman milljónirnar sem hrannast upp á hækkandi verði eigna þeirra. Jól og Páskar, sitt og hvað.  Það væri nú annað hvort!

Á öðrum stað má sjá fyrir sér námsmann sem lokið hefur námi fyrir 3 árum, með lífsförunaut sér við hlið og erfingjann ekki langt undan, með þessar 2 milljónir í bankainnistæðu, (sparnað síðan hann lauk námi) sem hefðu átt að færa honum möguleika til útborgunar í lítilli íbúð á Stór-Reykjavíkursvæðinu, stendur nú úrræðalaus frammi fyrir sömu eign (virði 5.000.000.- kr. 1997) sem rokið hefur upp í verði að því er virðist vegna útsýnis út um eldhúsgluggann í átt til Esjunnar, eða vegna nálægðar hennar við höfuðborgina.  Verðið 15.000.000,-kr. í dag og gæti hæglega breyst í 17.000.000,-  á morgun.
Í ofangreindu dæmi er ég að tala um mann sem vill eignast sitt húsnæði en ekki fá andvirði þess að láni.

Hefur einhver velt því fyrir sér hvernig það fari með sálartetrið að vera stöðugt að fá eitthvað fyrir ekkert, að safna milljónum á sama tíma og hverri krónu er eytt? 

Það er þó gott til þess að vita að ein lögmannsstofa sé þegar farin að sýna samúð og nærgætni, meðvituð um þá skelfingu sem gagntaka mun almennan húseiganda sem ekki hefur gætt að sér, þegar hann loksins vaknar til þessa lögmáls að: ,,Það sem fer upp komi niður, að eign hans og gervisparnaður muni hverfa fyrr eða síðar í skuldafenið.

Þá er gott að geta hreiðrað um sig, annað hvort,  utan við sig eða afvelta á lögmannsstofu og sagt:  ,,Verum sanngjörn, ha, er ekki það sem þið standið fyrir?”

Jú við skulum vera sanngjörn og fara nú að líta þessi mál alvarlegri augum en við höfum gert hingað til.

Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024