Mikið álag á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja - hraðmóttaka opnuð aftur 1. mars
Á þessum árstíma eru sjúkdómar og pestir alls konar í hámarki á landinu öllu. Mikið álag hefur verið á HSS að undanförnu bæði á heilsugæslunni og sjúkrahúsinu eins og reyndar víða annars staðar á landinu. Ekki má gleyma því að við höfum tekist á við 25% niðurskurð frá árinu 2008 sem auðvitað hefur haft sín áhrif.
Starfsfólk er að gera sitt allra besta til að sinna sínu hlutverki við þessar aðstæður en álagið er mikið. Þetta álag veldur því að biðtími er lengri en við vildum, bæði á slysa- og bráðamóttökunni og eftir tímum hjá heilsugæslulæknum og hjúkrunarfræðingum.
Þann 1. mars opnum við aftur hraðmóttöku á heilsugæslunni á morgnana og væntum þess að við getum komið á móts við þarfir fleiri skjólstæðinga en við getum í dag.
Álagið hefur einnig, af sömu ástæðu og að ofan greinir, verið mikið á sjúkrahúsinu og hafa deildir verið fullnýttar og gott betur.
Við biðjum ykkur að sýna okkur skilning og vonumst til að brátt sjái fyrir endann á þessu erfiða tímabili.
Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri HSS