Metnaðarfull menntastefna fyrir Reykjanesbæ
Undanfarið hefur verið unnið að metnaðarfullri menntastefnu fyrir Reykjanesbæ sem tekur til allra skólastiga. Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur komið að þessu því í dag má gera ráð fyrir að flest allir nemendur haldi áfram námi að loknum grunnskóla. Við lok grunnskóla standa ungmennin frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum er lúta að menntun þeirra og vali á námi á nýju skólastigi. Á sama tíma aukast námskröfurnar og skólaumhverfið verður flóknara.
Það skiptir því máli að tryggja að þessi flutningur nemenda milli skólastiga, úr grunnskóla og í framhaldsskóla, verði sem auðveldastur fyrir nemendur. Til að þetta takist vel er mikilvægt að allir leggist á eitt, þ.e. heimilin og skólinn.
Í Fjölbrautaskóla Suðurnesja er námsframboðið mjög fjölbreytt og eiga allir að geta fundið nám við sitt hæfi hvort um er að ræða nám á stúdentsbrautum, starfsnám eða hefðbundið verknám. Einnig er í boði nám fyrir þá nemendur sem þurfa að bæta árangur sinn í einstaka kjarnagreinum og líka einstaklingsmiðað nám fyrir þá sem hafa verið í sérdeildum grunnskóla.
Ný námskrá, sem sjá má á netinu, gerir ráð fyrir að nemendur geti lokið stúdentsprófi á þremur árum en eins og í framhaldsskólum er námstíminn sveigjanlegur og hver og einn getur í raun farið í gegnum námið á þeim hraða sem hann kýs.
Við viljum auka og auðvelda fljótandi skil milli grunnskóla og framhaldsskóla og í því sambandi höfum við boðið nemendum 10. bekkja að koma og taka áfanga hjá okkur. Mest hefur þetta verið í stærðfræði, ensku og spænsku en einnig í verklegum áföngum eins og smíði, rafmagni og nú síðast í hári og textíl. Með því móti er komið til móts við þá nemendur sem vilja takast á við meiri ögrun og námslega áskorun og vilja flýta fyrir sér í námi.
Skólinn hefur kappkostað að taka við öllum nemendum af Suðurnesjum og svo verður áfram. Hér eiga allir að geta fundið nám sem henta áhugasviði og getu hvers og eins og tekið þátt í fjölbreyttu og öflugu félagslífi. Við skulum hafa í huga að það er nemandinn og þarfir hans sem eiga alltaf að vera í brennidepli.
Kristján Ásmundsson
Skólameistari FS