Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Metár í sjúkraflutningum á Suðurnesjum
Föstudagur 30. nóvember 2012 kl. 17:05

Metár í sjúkraflutningum á Suðurnesjum

Mikil aukning hefur verið í sjúkraflutningum á yfirstandandi ári og stefnir í metfjölda útkalla. Mesti fjöldi útkalla hingað til var árið 2008 en þá voru þau 2066, eftir hrun fjármálamarkaða og kreppu sem fylgdi í kjölfarið drógust  sjúkraflutningar nokkuð saman og voru fæstir árið 2010 eða 1816, síðan þá hefur útköllum fjölgað og stefnir í að í ár verði metið frá 2008 slegið.

 Þegar tölfræðin er skoðuð vekur það  athygli hversu mikil aukning hefur verið á sjúkraflutningum frá Suðurnesjum  til Reykjavíkur.  Árið 2007 voru um 37% allra útkalla til Reykjavíkur en  í ár stefnir í að  47% allra sjúkraflutninga  séu út fyrir heilbrigðisumdæmi HSS.  Ekki verður séð að nokkuð í umhverfinu hafi breyst á þessum tíma  annað en að HSS hefur orðið fyrir verulegum niðurskurði sem síðan leiðir af sér aukið álag á Brunavarnir Suðurnesja.  Í þessu samhengi  ber að hafa í huga að sjúkraflutningur til Reykjavíkur tekur fjórum sinnum lengri tíma en sjúkraflutningur innanbæjar. Sú fjölgun og breyting á eðli útkalla gerir að verkun að eðlileg krafa um hækkun á núverandi samningi milli Sjúkratrygginga Íslands og Brunavarna Suðurnesja verði tekin gild.

Það getur ekki talist góð eða eðlileg stjórnsýsla að dregið sé úr útgjöldum á einum stað, vitandi að það muni leiða til aukinna útgjalda hjá öðrum án þess að koma til móts við eðlilegar kröfur um aukin fjárframlög til þess að mæta  auknum kostnaði og álagi.

Það er einsdæmi meðal þeirra sem eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands um sjúkraflutninga að svo hátt hlutfall útkalla sé flutt í annað heilbrigðisumdæmi. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að fá viðsemjendur til þess að taka tillit til þessarar staðreyndar hefur ekki tekist að ná fram þeirri hækkun sem við teljum nauðsynlega og sanngjarna.

Núgildandi samningur við Sjúkratryggingar Íslands rennur út um áramót og eru viðræður í gangi milli samningsaðila.  Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir 1,2% hækkun milli ára, sú hækkun er ekki að fylgja kjara eða verðlagsþróun, hvað þá að tekið sé  tillit til verulegs aukins álags vegna fjölgunar á útköllum og ekki síst miklum fjölda sjúkraflutninga út fyrir heilbrigðisumdæmi HSS.

Það er von mín að þeir stjórnmálamenn sem fara með fjárveitingarvaldið sjái þá sanngirni  sem felst  í  þeim hógværu kröfum sem við höfum sett fram, en þær eru settar fram til þess að Brunavarnir Suðurnesja geti  til framtíðar  veitt Suðurnesjamönnum  framúrskarandi  neyðarþjónustu með vel menntuðum og öflugum starfsmönnum.

Með góðum kveðjum
Jón Guðlaugsson
Slökkviliðsstjóri

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024