Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Metár í fjölda ferðamanna - 650 sumarstörf hjá umsvifamestu ferðaþjónustufyrirtækjunum á Suðurnesjum
Fimmtudagur 11. ágúst 2011 kl. 15:18

Metár í fjölda ferðamanna - 650 sumarstörf hjá umsvifamestu ferðaþjónustufyrirtækjunum á Suðurnesjum


Nú stefnir í besta ferðasumar á Íslandi frá upphafi, en ætlað er að 550.000 ferðamenn komi til landsins í ár. Gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar nema 155 milljörðum á ári sem er um 20% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar. Ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurnesjum hafa orðið vör við þessa aukningu sem hefur haft jákvæð áhrif á rekstur og fjölda starfa í greininni.

Fleiri ferðamenn - fleiri störf
Aukin umsvif ferðaþjónustu hafa skilað um 650 sumarstörfum hjá stærstu fyrirtækjunum, ISAVÍA, Fríhöfninni, IGS, Iceland Express og Bláa Lóninu. Störfin eru fjölbreytt og má nefna farþegaafgreiðslu, flugvernd, veitingar og heilsuferðaþjónustu. Sumarstörf hjá smærri ferðaþjónustufyrirtækjum t.d. hótelum, gistiheimilum og bílaleigum og eru ekki inni í þessum tölum. Á ársgrundvelli veita þessi sömu fyrirtæki 1100 störf.

Fjölgun gesta Bláa Lónsins
Gestum Bláa Lónsins hefur fjölgað um 9% það sem af er ársins og það sem af er þessa árs hafa 268.000 gestir heimsótt Bláa Lónið. Í júlí tók Bláa Lónið á móti 78.000 gestum og er það 10% aukning m.v. sama mánuð á sl.ári. Aukinn fjöldi gesta kallar á fleira starfsfólk og voru 60 sumarstarfsmenn ráðnir til Bláa Lónsins og gert er ráð fyrir að hluti sumarstarfsfólks verði fastráðinn í haust eins og undanfarin ár.

Ferðamenn dvelja lengur á svæðinu
Bergþóra Sigurjónsdóttir, hótelstjóri Flug Hótels, segir umtalsverða aukning vera í ár auk þess sem gestir dvelji lengur, gjarnan í 3 –7 daga, í stað þess að dvelja eingöngu nóttina fyrir flug. Þetta er afar jákvæð þróun þar sem gestir sem dvelja lengur nýta sér verslun og þjónustu á svæðinu. Til að mæta aukinni eftirspurn bætti Flughótel við 10 starfsmönnum yfir sumartímann.

Fabian Widmen framkvæmdastjóri hjá Camper Iceland sem leigir út húsbíla segir sumarið hafa verið gott hjá fyrirtækinu. Langflestir þeirra sem leigja bíla hjá fyrirtækinu eyða fyrstu og síðustu dögunum á svæðinu. Fabien segir það einnig jákvætt að ferðatímabilið er að lengjast og bókanir nái nú lengra inn á haustið heldur en á sl. ári.

Ljóst er að ferðaþjónustan er ein mikilvægasta atvinnugrein okkar og mun hún eingöngu vaxa og dafna á næstu árum. Helstu vaxtartækifæri ferðaþjónustunnar eru yfir vetrartímann og mun aukin áhersla á vetrarferðamennsku skapa fleiri góð heilsársstörf.

Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa Lónsins hf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024