Merkileg tilviljun?
Í júlí 2007, þegar einkavæðing Hitaveitu Suðurnesja hófst og Reykjanesbær seldi fyrir 3 milljarða, höfðu fréttamenn ríkissjónvarpsins upp á Árna Sigfússyni, bæjarstjóra í Reykjanesbæ í garðveislu hjá Ásgeiri Margeirssyni, forstjóra Geysi Green. Það þótti honum mikilvægara en að upplýsa bæjarfulltrúa minnihlutans um stöðu mála sem hann gerði aldrei á þessum tíma.
Í október 2008 sat bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Árni Sigússon við REI hringborðið ásamt Ásgeiri Margeirssyni forstjóra Geysis Green Energy og fleiri „mikilmennum” og vélaði þar um framtíð Hitaveitu Suðurnesja í miklu glæfrarspili sem ekki varð að veruleika, þökk sé Reykvíkingum. Þetta þótti honum merkilegra en sinna öðrum verkefnum sem hann þó boðaði að hann myndi sinna.
Í júlí 2009 seldi bæjarstjórinn í Reykjanesbæ, Árni Sigfússon og hans fylgdarlið í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hlut sveitarfélagsins í HS Orku. Svo ólíklegt sem það er nú var kaupandinn fyrirtæki að nafni Geysir Green Energy og forstjóri þess fyrirtækis heitir Ásgeir Margeirsson, sem jafnframt er stjórnarformaður í HS Orku.
Eru þær ekki merkilegar þessar tilviljanir í lífinu?
Guðbrandur Einarsson
oddviti A-listans í Reykjanesbæ