Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mér er dauðans alvara
Laugardagur 23. mars 2013 kl. 12:10

Mér er dauðans alvara

Það er mars og árið er 2013. Það er enginn venjulegur mánuður því það er mottumars. Annað árið í röð er ég með í þeim skemmtilega sið að safna yfirvaraskeggi til stuðnings góðu málefni. Ég er ekki í keppni eins og svo margir en óska öllum meðbræðrum mínum sem taka þátt í þeim kappleik góðs árangurs. Mitt yfirvaraskegg er einfaldlega til þess ætlað að vekja fólk til vitundar og kannski verður það til þess að hvetja einhverja til að styðja við gott málefni.

Ég, eins og svo margir aðrir, hef því miður þurft að horfa upp á fólk mér náið tapa baráttunni við krabbamein. En ég hef líka orðið vitni að því þegar fólk hefur sigrast á þessum fjanda og ég veit hversu miklu máli það skiptir að vera upplýstur um fyrstu einkenni og að geta leitað sér aðstoðar þegar þess þarf. Það á ekki að vera feimnismál að tala um krabbamein.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég hef komist að því að mörgum finnst ekkert sérstaklega smekklegt að sjá karlmenn með yfirvaraskegg og ég hef fengið allskonar skot á mig. Ég læt slíkt sem vind um eyru þjóta. Mánudaginn 1. apríl mun ég taka upp rakvélina og skafa af mér öll skegghár, en fram að því mun ég að bera mottuna mína með stolti því mér er dauðans alvara með henni.

Ólafur Þór Ólafsson
bæjarfulltrúi í Sandgerði og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi