Menntun er máttur
Reykjanesbær er að móta menntastefnu þar sem fræðslu- og tómstundamál eru sameinuð með það að leiðarljósi að huga vel að þroska barna sem búa í bænum okkar. Þann 8. mars næstkomandi frá klukkan 17 til 19 verður íbúaþing í Stapa þar sem íbúar geta komið að mótun menntastefnunnar.
Í Reykjanesbæ eru sex grunnskólar sem gegna því hlutverki að veita nemendum alhliða menntun í öruggu umhverfi þannig að hvert barn fái notið sín. Grunnskólarnir veita nemendum tækifæri til að tileinka sér þekkingu, leikni og hæfni sem stuðlar að alhliða þroska þeirra og þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. Nemendur eru í öndvegi, menntun þeirra, uppeldi og líðan stýra starfi skólanna. Gerðar eru kröfur til nemenda og boðið upp á þroskandi vinnuumhverfi sem hvetur til náms. Grunnskólarnir hafa það að markmiði að sú menntun sem þeir veita, stuðli að því að nemendur njóti sín og beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Gildismat og stuðningur foreldra skiptir miklu máli fyrir framtíð barnanna okkar sem og vel menntað starfsfólk skólanna.
Við hvetjum bæjarbúa til að mæta í Stapa og hafa áhrif á framtíð barna og ungmenna í Reykjanesbæ.
Bryndís Guðmundsdóttir
Skólastjóri
Bryndís Jóna Magnúsdóttir
Deildarstjóri
Rafn Markús Vilbergsson
Verkefnastjóri