Menntamálin í núinu

Við hjá Pírötum viljum að í Reykjanesbæ verði áfram gerðir framsýnir og góðir hlutir í menntamálum. Á grunnskólastiginu eru menntamál almennt í góðum gír og það er verið að huga að nýjum grunnskólum til að mæta íbúafjölgun. Það sem upp á vantar er að innleiða vinnulag aðalnámsskráa af meiri festu og það vantar að gera betur við þann hóp grunnskólabarna sem ekki hafa fengið að upplifa og njóta þeirra réttinda sem þau hafa, líkt og Barnasáttmáli SÞ, núverandi grunnskólalög og menntastefna Reykjanesbæjar kveða á um.
 
Fátt er okkur foreldrum jafn mikilvægt og að finna fyrir því að börn okkar séu í góðum skóla þar sem þau fá að njóta sín. Að þau upplifi jákvæða félagsvitund, séu partur af sínu umhverfi og með jafnöldrum. En ef upp er komin sú staða að barnið er sett í úrræði sem neitar því um aðgang við jafnaldra sína hlýtur krafan að vera sú að fylgja eigi núverandi stefnu gagnvart þessum börnum einnig.
 
Innan Háaleitisskóla er að finna sérdeild sem nefnist Goðheimar sem þjónustar alla grunnskóla Reykjanesbæjar. Þar er bæði verið að koma til móts við sérþarfir þeirra í bóklegu námi en einnig gera þeim kleift að mynda félagsleg tengsl við sína jafnaldra og nærumhverfi. Sá annmarki er við úrræði Háaleitisskóla að þangað fara eingöngu börn upp í 6. bekk. Eftir það eru þau send úr sínum hverfisskóla og m.a. sett í Björkina í Njarðvíkuskóla.
 
Þar er þó ámælisvert að þau börn sem eru í Björkinni fá engin samskipti við önnur börn Njarðvíkurskóla fyrir utan frímínútur. Þau eru ekki með öðrum börnum í smíði, íþróttum, heimilisfræði né öðrum fögum og þar með hafa börnin ekki hvatann til að tengjast öðrum börnum þann stutta tíma sem frímínutur eru. Vegna þessa er sá ábati sem stefnt er að með stefnu Bjarkarinnar að vinna gegn sjálfri sér með einangrun sem börnin lenda í. Sú einangrun vinnur gegn menntastefnu Reykjanesbæjar og þeirri vinnu að stefna að betra félagsfærni barnanna.
 
Hvað er þá til ráða? Við skulum skoða hvað aðrir skólar hafa gert og nýta það sem komið hefur sér vel m.a. fyrir börn með greiningar. Sem dæmi má taka Nú skólann sem staðsettur er í Hafnarfirði. Í Nú skólanum er einstaklingsmiðað nám þar sem nemendur fá að nálgast námsefnið á sínum eigin forsendum. Það eru engar skólabækur, eingöngu tölvur og það kennslukerfi sem notast er við er vendinám. Það hefur sýnt sig að það fyrirkomulag að hafa 3 fög í þrjár vikur í senn hentar börnunum betur en að vinna að öllum fögum samtímis.
 
Reynsla þeirra sýnir að þetta námsfyrirkomulag hentar börnum með greiningar mjög vel. Það má m.a. sjá í námsárangri barnanna þar sem börnin hafa verið að ná betri árangri námslega m.a. í stærðfræði, en í öðrum skólum Hafnarfjarðar.
 
Við öll fáum að lifa eitt æviskeið og reynsla okkar sem börn mótar framtíðina okkar og líf. Píratar hafa valið að fylgja menntastefnu sem miðar við að virkja aðalnámsskrár menntamálaráðuneytis. Það þarf að gera átak í því innan menntageirans og þar innan rúmast vel þau bættu úrræði sem sjá má fyrir sér varðandi börn með greiningu.  
 
Guðmundur Arnar Guðmundsson, 
frambjóðandi í 4. sæti á lista Pírata í Reykjanesbæ.