Menntamálaráðherra hugar að Suðurnesjum
Á síðustu misserum hafa víða birst greinar þess efnis að ríkisstjórnin geri lítið fyrir Suðurnesin. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum ályktaði á síðasta aðalfundi að Suðurnesin væru hornrekur þegar litið væri til fjármagns í ákveðna málaflokka. Margt er til í þeim orðum en samt sem áður eru ýmsir í núverandi ríkisstjórn sem hafa eytt miklum tíma og orku í málefni Suðurnesja. Reyndar höfum við oft fengið það staðfest í samtölum við þingmenn og ráðherra að þeir láta sér annt um Suðurnesin og oft fylgja verk þeim hug. Sú sem einna harðast hefur beitt sér til að rétta hlut Suðurnesjamanna er Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður VG.
Menntamálaráðherra setti af stað verkefni hér á Suðurnesjum þar sem farið var í ítarlega kortlagningu á menntun á svæðinu og þeim úrræðum sem væru í boði. Menntamálaráðherra hefur beitt sér fyrir því að fisktækniskólinn hefur hlotið viðurkenningu sem menntastofnun með ákveðnum skilyrðum og hún beitti sér einnig fyrir því að Keilir og það góða starf sem þar er unnið fékk verðskuldaða viðurkenningu stjórnvalda. Menntamálaráðherra hefur hlustað á raddir frá Suðurnesjum um uppbyggingu símenntunar og samstarf við Vinnumálastofnun og hefur hún beitt sér fyrir átaki í því að tengja saman símenntun og vinnumarkað. Menntamálaráðherra beitti sér fyrir stofnun fræðaseturs í Sandgerði til að auka menntun og rannsóknir á svæðinu og tengsl við háskólasamfélagið og síðast en ekki síst hefur hún fyrst íslenskra menntamálaráðherra leiðrétt langvarandi misræmi í fjárframlögum milli Fjölbrautaskóla Suðurnesja og annarra mennta- og fjölbrautaskóla á landinu.
Það skiptir okkur máli á Suðurnesjum að fólk frá svæðinu sé á Alþingi Íslendinga. En það skiptir líka miklu máli að hafa ráðherra sem skilja vanda ákveðinna svæða, vilja hlusta á raddir heimamanna og er tilbúnir að beita tíma sínum og áhrifum til að leiðrétta það. Undir þeim væntingum hefur Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra staðið á síðasta kjörtímabili.
Arndís Soffía Sigurðardóttir
Lögfræðingur 1. sæti VG í Suðurkjördæmi
Inga Sigrún Atladóttir
Guðfræðingur 2. sæti VG í Suðurkjördæmi