Menntamál eru atvinnumál
- Ísak Ernir Kristinsson skrifar.
Íbúar Reykjanesbæjar mega vera stoltir af stöðu menntamála í sveitarfélaginu.
Við búum að mjög góðum leikskólum með fjölbreytta nálgun og aðferðafræði.
Grunnskólar bæjarins hafa skýra og skilvirka framtíðarsýn sem birtist meðal annars í glæsilegum niðurstöðum í samræmdum prófum.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur náð eftirtektarverðum árangri í baráttunni gegn brottfalli. Einnig er vert að geta þess að könnun sem gerð var meðal stjórnenda skólans leiddi í ljós að stúdentar frá FS eru mjög vel undirbúin fyrir háskólanám og standast allan samanburð í þeim efnum.
Háskólinn Keilir, staðsettur uppi á Ásbrú, hefur nú útskrifað á annað þúsund nemendur af háskólabrú. Háskólabrú er afar hagnýtt nám sem opnar dyr nemenda að háskólamenntun. Tæknifræðinám skólans hefur einnig notið mikilla vinsælda sem og þær námsgreinar sem snúa að hinum mörgu þáttum flugheimsins. Keilir hefur auk þessa haslað sér völl erlendis og laðað að fjölmarga námsmenn erlendis frá.
En dugar það eitt og sér að hafa menntamálin í lagi?
Við hér í Reykjanesbæ þekkjum þann vanda eins og mörg önnur sveitarfélög að fólk snýr ekki í nógu miklum mæli heim að lengra námi loknu, heldur kýs að ílengjast á höfuðborgarsvæðinu. Við þessu þarf að sporna því ekki er hér einungis um að ræða atgervisflótta heldur verður sveitarfélagið af tekjum í leiðinni.
Hvernig er hægt að bregðast við? Hvernig getum við komið til móts við þá sem sækja nám til höfuðborgarsvæðisins?
Í dag fá leigjendur íbúða Háskólavalla á Ásbrú frítt rútukort til Reykjavíkur, og er það vel. Ég tel að við þurfum að ná til allra íbúa Reykjanesbæjar sem stunda nám í Reykjavík. Getum við boðið ókeypis rútuferðir þeim til handa? Það væri viðleitni til þess að halda okkar fólki í heimbyggð á meðan á námi stendur. Í því liggja mikil verðmæti hvernig sem á það er litið.
Menntamál eru atvinnumál
Þar á ég við að ef atvinnulífið tekur ekki við fólki eftir menntun þá náum við tilganginum ekki nema að hluta. Við þurfum fjölbreytt framboð atvinnutækifæra. Jafnt til þeirra sem aflað hafa sér sérþekkingar í formi menntunar sem hinna sem valið hafa aðra leið.
Ísak Ernir Kristinsson
Gef kost á mér í 5.-6. Sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ