Menningarveisla í Sandgerði
Um nýliðna helgi var boðið til menningarveislu í Sandgerði.
Á laugardeginum opnaði einstaklega skemmtileg sýning í Listatorgi á verkum Guðlaugar Brynjarsdóttur og Lárusar Guðmundssonar. Glerverk þeirra mæðgina eru í senn glæsileg og glettin. Maður brosir um leið og maður dáist að vönduðu handverkinu.
Á sunnudeginum stóð Thailensk-íslenska félagið fyrir sýningunni Samfelld tælensk arfleifð 2012. Á sýningunni komu fram hæfileikaríkir dansarar og tónlistarfólk frá tælenskum listaháskóla og gestir fengu að njóta tælenskrar matargerðar. Eina kvöldstund breyttist Samkomuhúsið í Sandgerði í tælenska höll sem iðaði af lífi.
Því miður fyrir þá sem ekki komust verður sýning tælenska listafólksins ekki endurtekin. Hins vegar mun sýning þeirra Guðlaugar og Lárusar í Listatorgi standa til 19. ágúst og er opið alla daga milli kl. 13:00 og 17:00 þannig að sem flestir ættu að ná að renna við og njóta.
Ólafur Þór Ólafsson
forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar