Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Menning
Föstudagur 14. maí 2021 kl. 10:51

Menning

Suðurkjördæmi er svo sannarlega hérað landbúnaðar, sjávarútvegs, ferðaþjónustu og svo fjölmargra frumgreina okkar góða samfélags. Við eigum gróðursælt undirlendi, ótrúlega náttúrufegurð, gott aðgengi að fiskimiðum sem og útflutningshöfnum og millilandaflugvelli. Fleira má til nefna svo sem aðgang að orku, vinnuafli og hreinu vatni. Engum dylst mikilvægi þessara hluta er kemur að byggðamálum.

Það er þó annað sem fólk nefnir almennt ekki í umræðum um landsbyggðarmál en það er hlutur menningar. Vel má vera að aðgengi að menningu spili ekki stóra rullu þegar fólk velur sér búsetu en ef sá hluti samfélagsins er ekki í lagi, þá er hætt við að allir þeir hlutir sem upp voru taldir í upphafi þessarar greinar dugi skammt til að veita þá lífsfyllingu sem hver maður þarf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Menning er talin ein af frumþörfum mannsins og er sett til jafns við þörfina að seðja hungur, þreytu og að eðla sig. Sumir hagfræðingar ganga svo langt að setja menningu í efsta sæti þeirra atriða sem skora mest þegar meta skal lífsskilyrði í samfélögum. Atvinna, samgöngur, fæðuöryggi og fleira kemur á eftir.

Suðurkjördæmi er blessunarlega einnig ríkt af menningu og gefur öðrum landshlutum ekkert eftir hvað það varðar. Tónlistarlíf og aðrar listir skipa stóran sess, safnastarfsemi er með mesta móti, fjölbreyttar bæjarhátíðir blómstra og veitingastaði má víða finna sem mælast á mælistiku alheimsins og skora þar hátt. Þátttaka almennings í menningu er almennt góð, fjöldi kóra og annarra tónlistarhópa er starfræktur, leikfélög og ýmsir hópar í fjölbreyttum listgreinum. Þannig gefst íbúum bæði tækifæri að njóta menningar og að vera þátttakendur.

Það er mikilvægt fyrir ráðamenn þjóðar að átta sig á gildi menningar í samfélögum. Sé þáttur menningar ekki tekinn inn í myndina þegar rædd eru landsbyggðarmál er víst að myndin verður skökk. Huga verður vel að því að búa menningarstarfsemi góðan jarðveg, þar sem almenningur getur stundað og notið lista og menningar. Án slíkrar hugsunar er allt tal um landsbyggðarmál á veikum grunni byggt.

Ríki og sveitarfélög hafa komið myndarlega að þessum málum, með ýmsu móti, svo sem í gegnum menningarhluta uppbyggingarsjóða landshlutanna og með fjárveitingum í menningarhús. Slík aðkoma opinberra aðila er nauðsynleg fyrir framgang menningar og í raun til fyrirmyndar hvernig fjármagni er deilt á svæðunum sjálfum en ekki miðlægt frá höfuðborginni.

Ég kem m.a. úr menningargeiranum og hef djúpan skilning á mikilvægi menningar fyrir samfélög. Ég tel að menningarstarf sé grunnforsenda samfélaga og að skapa þurfi jarðveg til að hún nái að blómstra. Þannig getum við nýtt okkur alla þá aðra kosti sem kjördæmið hefur upp á að bjóða.

Jarl Sigurgeirsson.
Höfundur er þátttakandi í prófkjöri sjálfstæðismanna
í Suðurkjördæmi.