Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 13. október 2003 kl. 09:09

Meirihlutinn í Grindavík á móti eigin launalækkun

Bæjarfulltrúar Framsóknarfélags Grindavíkur lögðu til á síðasta fundi bæjarstjórnar Grindavíkur að bæjarfulltrúar afsali sér þeirri hækkun sem átti sér stað með hækkun á þingfararkaupi í maí s.l. Fulltrúar Framsóknarfélags Grindavíkur í bæjarstjórn hafa ákveðið að afsala sér henni og skora á félaga sína í meirihlutanum að gera slíkt hið sama. Tekist var á um þetta mál og nokkrar bókanir lagðar fram. Að endingu var tillaga framsóknarmanna felld. Umræðan í bæjarstjórn, eins og hún kemur fram í fundargerðum bæjarins er meðfylgjandi:

2. Endurskoðun á fjárhagsáætlun 2003
Bæjarstjóri fór yfir helstu breytingar á fjárhagsáætlun 2003. Helstu niðurstöður eru þær að rekstur samstæðu batnar um 9,7 milljónir og handbært fé hækkar um 2,7 milljónir kr.
Aðrir sem til máls tóku: Gunnar, Dagbjartur, Ómar, Garðar, Sigmar og Hörður.

Tillaga frá fulltrúum B-lista:
Við undirritaðir bæjarfulltrúar Framsóknarfélags Grindavíkur leggjum hér með til að bæjarfulltrúar afsali sér þeirri hækkun sem átti sér stað með hækkun á þingfararkaupi í maí s.l. Við höfum ákveðið að afsala okkur henni og skorum á félaga okkar í meirihlutanum að gera slíkt hið sama. Einnig leggjum við til að rætt verði við þá starfsmenn í yfirstjórn bæjarins sem þáðu sömu hækkun um að þeir geri slíkt hið sama. Það er okkar álit að nú þegar aðhald og sparnaður ráða ríkjum, þá göngum við sem stjórnum bænum fram og sýnum gott fordæmi.

Dagbjartur Willardsson
Gunnar Már Gunnarsson

Bókun vegna tillögu fulltrúa B-lista:
Meirihluti D- og S- lista hefur í þeirri viðleitni að lækka kostnað við yfirstjórn bæjarfélagsins fækkað nefndum og gætt hófsemi í fjölda funda.

Fulltrúar D- og S-lista.

Bókun:
Við undirritaðir bæjarfulltrúar Framsóknarfélags Grindavíkur lýsum yfir vonbrigðum okkar og furðu með viðbrögð meirihlutans í máli því sem snýr að tillögu okkar um að bæjarfulltrúar afsali sér hækkun þeirri sem kom í kjölfar ákvörðunar kjaradóms um hækkun þingfararkaups. Þar sem meirihlutinn og bæjarstjóri hafa gengið hart fram í sparnaðartillögum á hinum ýmsu sviðum þá finnst okkur óeðlilegt að ekki sé hægt að líta í eigin barm og sýna gott fordæmi. Hækkun sú sem sett var á í maí s.l. kostar bæjarsjóð rúmar fjórar milljónir brúttó á þeim sjö mánuðum sem hún nær til á þessu ári í launum æðstu stjórnenda bæjarins og bæjarfulltrúa.

Dagbjartur Willardsson
Gunnar Már Gunnarsson

Bókun:
Það er skoðun meirihlutans að þau laun sem nú eru greidd fyrir fundarsetu séu síst of há enda er hér um að ræða leiðréttingu til næstu fjögurra ára.
Meirihlutinn vill vekja athygli á því að brúttóhækkun nefndarlauna vegna hækkunar þingfararkaups nemur ca. 2,5 milljónum kr á ársgrundvelli.
Þá vill meirihlutinn ítreka að þegar hefur verið brugðist við kostnaði vegna yfirstjórnar Grindavíkurbæjar með fækkun nefnda og færri fundardögum. Meirihlutinn gerir ráð fyrir því að kostnaður vegna fundarsetu eigi eftir að lækka enn frekar.

Fulltrúar D- og S-lista

AFGREIÐSLA
Tillaga frá fulltrúum B-lista: Tillagan er felld með 4 atkvæðum, 1 situr hjá.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024