Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Meiri fjölgun, fleiri lóðir, betri bær
Þriðjudagur 17. maí 2005 kl. 01:19

Meiri fjölgun, fleiri lóðir, betri bær

Nú berast okkur þær ánægjulegu fréttir að bæjarbúar séu orðnir 11.081 og hefur þeim fjölgað um 130 einstaklinga frá áramótum eða um 1,2%. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir 1,5% aukningu íbúa á árinu öllu.

Ljóst er að áætlun meirihlutans um fjölgun er mjög varfærin þrátt fyrir fullyrðingar minnihlutans um hið gagnstæða. Má benda á að Tjarnarhverfi, okkar nýja og glæsilega íbúðahverfi, hefur ekki enn tekið á móti nýjum íbúum þó uppbygging þar sé í fullum gangi.  Það er því eðlilegt að spurt sér hvort tvöföldun Reykjanesbrautar og gríðarleg uppbygging í umhverfis- og skipulagsmálum svo og skóla-, menningar- og íþróttalífi séu nú að skila sýnilegum árangri? Er næsta íbúasprengja eins og við höfum séð síðustu ár í Kópavogi og Hafnarfirði nú að hefjast hér í Reykjanesbæ


Nýtt hverfi austan Tjarnahverfis.
Flestir eru sammála um að í vinnu Umhverfis- og skipulagssvið og verktaka bæjarins eru fagleg sjónarmið látin ráða ferðinni í núverandi uppbyggingu og hafa bestu arkitektar landsins nú verið fengnir til að skipuleggja framtíðarsvæði og byggingar. Má þar m.a. nefna framtíðar íþróttasvæði ofan Reykjaneshallar og svæði eldri borgara, íþróttaakademíu og nemendaíbúðir henni tengd svo og ný íbúðarsvæði. Þrátt fyrir hraða uppbyggingu í Tjarnarhverfi og úthlutun 540 nýrra íbúða þá eru þegar margir sem hafa haft samband og eru að leita af lóðum eða húsnæði við hæfi, en öllum lóðum hefur þegar verið úthlutað. Eitt slíkt dæmi er um ungt par með í góðum störfum sem hafa síðustu mánuði gengið á milli fasteignasala og húseiganda, ákveðin að finna framtíðarhúsnæði hér í bæ, og höfðu síðan í síðustu viku erindi sem erfiði í Keflavíkurhverfi bæjarins.  Víst er að eitthvað af þessum málum leysast þannig sjálfkrafa þegar núverandi íbúar, sem eru að flytja í nýju hverfin, setja hús sín á sölu á næstu vikum og mánuðum. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að vinna við nýtt hverfi austan Tjarnarhverfis, nær Stapa, verði sett í flýtimeðferð. Frumdrög hverfisins hefur verið kynnt í Umhverfis- og skipulagsráði en þar er gert ráð fyrir 530 íbúðum til viðbótar því sem nú þegar er í uppbyggingu. Þar er stefnt að úthlutun lóða í haust þannig að framkvæmdir gætu hafist þegar á næsta ári.

Fjölgun íbúa og ný atvinnutækifæri.
Það var ánægjulegt að fá að bjóða 11 þúsundasta íbúann velkominn í Reykjanesbæ en þar var um að ræða einstakling úr fjögurra manna fjölskyldu úr Hafnarfirði. Nú í byrjun maímánaðar voru síðan skráðir íbúar þegar orðnir 11.081. Nýir íbúar eru að koma frá fleiri stöðum en fæðingardeild svæðisins en með hraðari fjölgun íbúa og skilvirkri uppbyggingu íbúðahverfa erum við að ná árangri í að auka tekjur bæjarins og þannig bæta mannlíf bæjarbúa. Samkvæmt áætlunum og í ljósi stöðunnar er því búist við enn frekari íbúafjölgun á næstu misserum. Atvinnuleysi er nú með minnsta móti og er því mikilvægt að fjölga atvinnutækifærum en frekar en öll ytri skilyrði eru okkur mjög hagstæðar. Má þar nefna uppbyggingu í Helguvík sem þegar er farin að skila miklum árangri m.a. með samningi við FL Group um olíugeymslur og nú um helgina með viljayfirlýsingu við Norðurál um byggingu stórs álvers. Hugmyndir sem falla vel að framtíðaráformum athafnasvæðisins í Helguvík og sýna að framsýni meirihluta Sjálfstæðismanna í markaðssetningu og uppbyggingu svæðisins eru nú að skapa raunveruleg tækifæri sem annars væru ekki til staðar. Þá er bygging Reykjanesvirkjunar á fullri ferð, fjölgun ferðamanna mikil og uppbygging við Flugstöð Leifs Eiríkssonar svo ekki sé minnst á gott aðgengi til og frá höfuðborgasvæðinu með tvöfaldri Reykjanesbraut.


Lokaorð.
Það er ekki tilviljun að fólki fjölgi nú í Reykjanesbæ og að eftirspurn eftir lóðum hafi aldrei verið meiri. Með miklu átaki í umhverfis- og skipulagsmálum hefur ímynd bæjarins tekið stakkaskiptum um leið og aðrir þættir í þjónustu hafa aukist á öllum sviðum. Þá er niðurstaða rekstarreiknings bæjarins árið 2004 mjög ásættanlegur að teknu tilliti til þeirra miklu framkvæmda og uppbyggingar sem átt hefur sér stað á sama tímabili, eignarstaðan góð og framtíðartekjumöguleikar með besta móti. Við getum öll verið stolt af bænum okkar en meirihluti Sjálfstæðismanna mun hvergi slaka á í frekari uppbygginu samfélagsins verði okkur veitt brautargengi kjósanda næsta vor.

Steinþór Jónsson,bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna
og formaður Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar.

[email protected]


www.steini.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024