Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Með bilaðan fattara
Mánudagur 19. júlí 2004 kl. 23:13

Með bilaðan fattara

Í vor fyllti það mig stolti að sjá unga námsmenn leggja leið sína inn á bókasöfnin til að ná sér í fróðleik, skrifa ritgerðir og læra undir próf. Sumir höfðu með sér nesti, epli og ávaxtasafa, sem þeir fengu sér úti við í blíðviðrinu, inn á milli lærdómstarnanna. 
Nám er alltaf gefandi, það bætir innsæi og lyftir andanum á æðri stig en það getur hins vegar aldrei gefið manni gáfur.  Þær eru annars eðlis, viðameiri og flóknari.  Þekkingin sem lærdómurinn gefur er gáfunum auðvitað nauðsynleg, þó oftast meira sem hvert annað hjálpartæki.  Þetta er ótrúlegt en satt.
Því er mér alltaf minnisstætt þegar ungi nemandinn gekk á milli ráðgjafanna í skólanum og bað um lausn á sínum erfiðu málum.
„Ég er búinn að liggja yfir bókum alla síðustu viku og veit að ég er með bilaðan fattara.  Hvað geri ég nú?“  Í samtölum við ofangreinda aðila komu orð fyrir eins og „bókafælni“ og „lærdómstregða“ en enga lausn fékk hann á vandamáli sínu.  Það var ekki á þeirra færi að lækna svo algengan sjúkdóm.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að eiginleikar til náms eru aldrei meiri en þegar maður er ungur að árum.  Þessu til staðfestingar er hægt að horfa til þess hversu næm börn eru og fljót að tileinka sér umhverfi sitt og tungumál.

En er ekki allt í lagi að nám sé þungt og grisji úr þá bestu til áframhaldandi náms? 
Gott væri ef þetta væri svona einfalt því í spurningunni liggur sú fullyrðing að góður maður á bókina sé búinn flestum hæfileikum, en svo þarf aldeilis ekki að vera.  Aðstæður námsmanns, fjármagn til náms, vilji, agi, eru stórir áhrifavaldar í þessum málum.  Ef við hugsuðum okkur að hæfileikar væru hlekkir í keðju og svo væri togað í keðjuna myndi hún bresta um veikasta hlekkinn.   Því er hægt að segja að betra sé að mörgu leiti að hafa jafnari hæfileika en mikla á einstökum sviðum hvað nám varðar. 

Þú hefur trúlega heyrt setningar eins og ,,mikið er hann góður að spila eftir eyranu,” eða ,, nei ég spila  eingöngu eftir nótum.”
Mér er minnisstætt þegar ég horfði á þátt í Sjónvarpinu fyrir nokkrum árum sem fjallaði um hæfileika tónskáldsins Mozarts.  Búið var að kortleggja getu hans og hæfileika til tónheyrnar og tónsmíða.  Tilraun var gerð og til hennar boðið miklu tónskáldi og kennara sem átti að búa til nokkurra mínútna tónverk fyrir píanó sem innihéldi alls kyns brellur og erfiðleika fyrir minnið.  Tilraunaþolendur fengju einu sinni að heyra verkið og svo áttu þeir að spila það eftir bestu getu.  Til prófsins voru boðuð kona sem hafði lokið tónlistarprófi á háskólastigi og ungur maður sem var ómenntaður ofviti í tónlist en jafnframt með skerta hæfileika á öðrum sviðum.  Niðurstaðan: Stúlkan reyndist helmingi lakari en pilturinn og bæði til samans talin með ca. 30% af þeim hæfileikum sem Mozart bjó yfir.

Ég var þeirrar gæfu njótandi að sjá nýjasta samræmda grunnskólaprófið fyrir 10. bekk og brá dálítið þegar ég reyndi mig á því.  Heyrst hefur að nokkrir nemendur sem fengu 4 og allt að 5 á samræmda prófinu, hafi fengið 7 til 8 á almenna prófinu frá viðkomandi skóla.  Þó voru prófin unnin upp frá sama grunni, lærdómsbókunum í stærðfræði.  Hvernig má þetta vera og hver er tilgangurinn? 
Nú virtist ekki lengur duga að geta reiknað öll dæmin skammlaust í bókinni, eins og var í gamla daga því í samræmdu prófunum er höfðað til skilnings, dæmin samansett úr ólíkum formúlum, jafnvel 2-3 í sama dæminu og í einu þeirra brá fyrir „Þrautakóngi“ sem mér finnst eiga lítið skylt við stærðfræði. 

Hér kemur keimlíkt dæmi og var í prófinu af Þrautakóngi:
Drengurinn var ekki keyrður í skólann að þessu sinni því faðir hans þurfti til útlanda.  Á leiðinni í skólann hjólar drengurinn á stein og  dettur af hjólinu.  Á spítalanum kemur læknirinn til að líta á hann og hrópar: „Sonur minn, sonur minn!“  Hver var læknirinn?
Auðvelt, augljóst og einfalt ef fattarinn er í lagi.

Í einu dæminu var gengið út frá því vísu að bein lína innihéldi 180 gráður.  Þessum gráðum átti að skipta í þrennt þ.e.a.s. í hverjum hluta 60°.  Til þess að átta sig á þessu á einfaldan hátt getum við hugsað okkur klukku með stóra- og litla vísi.  Byrjum að horfa á klukkuna þegar hún er á slaginu 3.  Á milli vísanna eru 90°, rétt horn.  Við höfum litla vísinn áfram á slaginu 3 en færum stóra vísinn á 15 mínútur í heila tímann.  Þá mynda vísarnir beina línu á skífunni og þar með 180°. En hvað gerist ef við höfum litla vísinn áfram á 3 og færum stóra vísinn á 15 mínútur yfir heila tímann, nákvæmlega á sama stað og litli vísirinn er fyrir?  Hér höfum við líka beina línu en gráðurnar eru ekki  lengur 180, heldur 0.  Sama dæmið með tvær ólíkar lausnir.

Ég hef alltaf litið svo á að lærdómur væri einn af þeim þáttum sem stuðluðu að heilbrigði hjá einstaklingi og væri þeim auðæfi til framtíðar séð.  Hér er ég þó ekki að tala um þá öfga sem stundum má sjá, t.d. að bókin sé æðri móðurhjartanu í uppeldi barna, svo tekið sé dæmi.
Nei, beitum aga og aðhaldi, það er í góðu, en umfram allt verum dálítið ljúf og hrifnæm þegar mæla á árangur nemenda á grunnskólastigi því þannig viljum við nú einu sinni hafa æskuna.
Vel á minnst, í ofangreindu dæmi er læknirinn móðir drengsins.

Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024