Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Masterlykillinn!
Árni Sigfússon.
Föstudagur 7. febrúar 2014 kl. 10:19

Masterlykillinn!

Vönduð kærleiksrík umönnun og þjálfun fyrir börn á fyrstu árunum í lífi þeirra er áhrifaríkast til að þau nái að vaxa sem heilbrigðir, hamingjusamir og sjálfstæðir einstaklingar. Þetta er þjónusta sem leikskólarnir okkar veita öllum börnum í góðu samstarfi við foreldra.

Það eru ekki öll samfélög sem bjóða vandaða dagforeldraþjónustu fyrir þá sem á þurfa að halda og síðan leikskóla fyrir öll börn tveggja til sex ára. Hér í Reykjanesbæ höfum við sérstaklega notið þess í nærsamfélaginu að hafa getað sinnt þörfum sérhvers einstaklings, líka þeirra sem standa höllum fæti eða hafa veikt bakland. Alúð og fagmennska leikskólastarfsfólks er aðdáunarverð.

Hér gefst einstakt tækifæri fyrir okkur að sameina krafta foreldra og fagfólks til að tryggja að öll börn eigi færi á að njóta hins besta á þessum mikilvægu uppvaxtarárum.

Byggt á niðurstöðum vandaðra rannsókna

Niðurstöður erlendra rannsókna, með áherslu á að veita börnum með veikt bakland sérstaka athygli og örvun, hafa fært okkur heim sanninn um gildi örvunar og góðs atlætis barna fyrstu æviárin þegar barnið er móttækilegast fyrir að ná góðum málþroska, hreyfi- og tilfinningaþroska.

Rannsóknir, þar sem fylgst var með sömu einstaklingum í allt að fjörutíu ár, hafa sýnt greinilegan mun á börnunum sem á fyrstu æviárum fengu sérstaka örvun og þjálfun á móti samanburðarhópi sem fékk ekki sömu þjálfun. Þetta eru einstaklingar sem nú eru orðnir fertugir en voru á leikskólaaldri þegar þjálfun hófst, sem þó stóð yfir í aðeins nokkur ár.  Hér liggja m.a. að baki niðurstöður tveggja langtímarannsókna. Þær eru kenndar við Abecedarian Project og Perry Preschool Project

Þær sýna að börnin sem fá vandaða umönnun og skipulega þjálfun á fyrstu æviárunum, þurfa minni sérkennslu, ljúka frekar grunnskóla og framhaldsnámi en samanburðarhóparnir, eru félagslega sterkari, þurfa síður á bótakerfum að halda, lenda síður í afbrotum og hafa að meðaltali hærri laun á vinnumarkaði.

Áhugi hagfræðinga

Það er þess vegna sem virtir hagfræðingar hafa fengið áhuga á málinu, tekið niðurstöðurnar og reiknað þjóðfélagslegan sparnað af því að leggja meira í stuðning við þessi fyrstu æviár.

Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, James Heckman, hefur sýnt fram á að fyrir hverja eina krónu sem fjárfest er í vandaðri umönnun og fræðslu á fyrstu árunum í lífi hvers barns, sparist þannig 7 krónur í félagslegum kostnaði skattgreiðenda síðar.  Rannsóknir sýna að því eldri sem börnin eru þegar byrjað er að örva þau, verður erfiðara að ná sama árangri.

Vinna Heckmans byggir á að þróa vísindalegan grunn fyrir efnahagsstefnu sem styður öflugri menntun og örvun barna á leikskólaaldri. Hann hefur skoðað atvinnuleysi, launaþróun og færni á vinnumarkaði í samhengi og sýnt fram á hvernig aukin framleiðni einstaklingsins getur verið  byggð á því að fjárfesta sérstaklega í þjálfun hans á þessum fyrstu æviárum.  Það eru því ekki bara rök fyrir félagslega sterkari og  sjálfstæðari einstaklingum sem hvetja til fjárfestingar í leikskólastarfinu, heldur einnig rök fyrir bæði lægri samfélagskostnaði og aukinni framleiðni.

Leiðin er skýr

Það er þess vegna sem leikskólarnir okkar, í góðu samstarfi við foreldra, geta verið eins og Masterlykill að heilbrigði, hamingju og sjálfstæði barnanna, auk minni útgjalda úr opinberum bótakerfum.

Í gær var „dagur leikskólans“. En það er alltaf við hæfi að draga fram mikilvægi leikskólastarfsins. Allir þeir tíu leikskólar sem reknir eru hér í Reykjanesbæ, vinna af miklum metnaði. Þeir eru að takast á við þetta stóra verkefni að búa börnin okkar undir framtíðina. Þar er faglegt starf haft í heiðri. Þar er öflugt fagfólk  og nánast undantekningalaust stöðugleiki í starfsmannahaldi. Leikskólarnir bjóða umönnun og nám af bestu gerð með sérstaka áherslu á læsi og stærðfræði. Öll nálgun er lausnarmiðuð. Þar ríkir opinn hugur og kjarkur  fyrir nýjum leiðum og áskorunum. Allir leikskólar Reykjanesbæjar  gefa úr nýja skólanámskrá á þessu ári sem tekur mið af nýrri aðalnámskrá leikskóla. Skólarnir okkar eru fyrirmynd um gott samstarf foreldra og fagmanna sem ná fram langtímaárangri. Yngstu börnin okkar eru þegar að sýna óvenju góðan árangur á fyrstu árum grunnskólans. Það verður áhugavert að fylgjast með þeim áfram næstu 40 árin og sjá þau vaxa sem hamingjusama, heilbrigða og sjálfstæða einstaklinga.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024