Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Markvisst tónlistarstarf í leikskólum - grunnur að góðri framtíð
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 13:46

Markvisst tónlistarstarf í leikskólum - grunnur að góðri framtíð

Við lifum í heimi mikilla og örra breytinga. Barn sem er að alast upp í dag stendur frammi fyrir miklu flóknari veröld en kynslóðirnar á undan og þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að sjá þar mikinn mun á. Allur þessi hraði og fjöldi áreita setja mun meiri kröfur á einstaklinginn á viðkvæmum tíma í mótun hans og ber öll umræða um uppeldis- og menntamál þess glöggt vitni. Hrakandi lestrarfærni, vanlíðan og brottfall úr námi eru dæmi um þætti sem menn hafa sífellt meiri áhyggjur af. Mikil orka og fjármunir fara af þessum sökum í að bregðast við alls kyns vanda sem hrjáir fjölda barna í menntakerfinu, sem svo á móti verður á kostnað þess vandasama verks sem uppeldi og menntun barna okkar er.

En hvað er til ráða? Hverju getum við breytt í uppeldi og menntun barna okkar til að auka vellíðan, þroska og styrk til að takast á við lífið í þessum flókna heimi nútímans? Ég tilheyri þeim vaxandi hópi fólks sem telur að endurskoða þurfi áherslurnar í menntakerfinu okkar og stórauka vægi list- og verkgreina í öllu skólakerfinu, hætta að einblína á þátt hins akademíska bóknáms og horfa meira til uppeldis og menntunar út frá forsendum vaxtar og þroska. Þar er einn þáttur sem hefur verið stórlega vanmetinn og oftar en ekki sá sem verður útundan í skólum, en það er tónlist.

Ég vil leyfa mér að fullyrða, án þess að gera lítið úr öðrum greinum, að tónlist sé öflugasta tækið sem við höfum yfir að ráða til að efla og þroska börnin okkar. Þá skoðun mína byggi ég á eigin reynslu af tónlistarvinnu með börnum í leik- og grunnskólum en henni stuðnings vil ég einnig nefna hér nokkrar staðreyndir:

Þegar barn fæðist hefur það um þriggja mánaða skeið numið hljóð úr umhverfinu, þekkir rödd móður sem og einföld tónlistar- og taktmynstur.
Vinnsla tónlistar og tungumáls fer fram í nálægum og sömu stöðvum heilans.
Rannsóknir hafa sýnt að markvisst tónlistarstarf með börnum eflir vitsmuna-, félags- og tilfinningaþroska þeirra.

(Hér væri freistandi að halda áfram langri upptalningu en ég læt staðar numið í þágu greinarkornsins).

Ég hef lengi alið þann draum í brjósti að taka þátt í uppbyggingu tónlistarstarfs á leikskólastiginu og reyndi á sínum tíma að höfða til ráðamanna bæjarins um það en án árangurs. Nú höfum við í Beinni leið sett stefnuna á að farið verði af stað með markvisst tónlistarstarf í leikskólum Reykjanesbæjar á komandi kjörtímabili.Til að taka af allan vafa þá er hér ekki verið að tala um beina tónlistarkennslu með aðkomu tónlistarskólans heldur alhliða notkun tónlistar í leikskólum. Þar væri þáttur tónlistar í þroskaferli barnsins settur í öndvegi og stefnan unnin út frá því.

Markvisst tónlistaruppeldi á fyrsta skólastiginu getur, ef rétt er á haldið, lagt grunn að sterkari einstaklingum og betri líðan, dregið úr námsörðugleikum nemenda og þannig gefið skólunum betra svigrúm til að efla sitt starf. Bónusinn yrði svo enn öflugra tónlistarlíf, og hvergi væri meira við hæfi að hefja slíkt frumkvöðlastarf en einmitt hér í Reykjanesbæ - sjálfum tónlistarbænum!

Sólmundur Friðriksson
Grunnskólakennari í 14. sæti á lista Beinnar leiðar í Reykjanesbæ

Public deli
Public deli