Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Markaðsstofu ferðamála á Suðurnesin
Föstudagur 14. nóvember 2008 kl. 16:45

Markaðsstofu ferðamála á Suðurnesin



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ferðaþjónustan hefur til þessa ekki verið tekin nógu alvarlega af ráðamönnum þessa lands sem atvinnugrein. Alla heildarsýn á framþróun greinarinnar hefur vantað, það skortir metnað og betra skipulag til að nýta þau tækifæri sem þessi grein býr yfir.

Staðreyndin er sú að ferðaþjónustan skapar mikilvægan skerf af þeim gjaldeyri sem þjóðarbúið þarf á að halda og getur gert mun betur. Ferðaþjónustan býr til hlutfallslega flest störf af gjaldeyrisgreinunum þremur sjávarútvegi, áli og ferðaþjónustu.  Til samanburðar þá  störfuðu við ferðaþjónustu 8211 manns árið 2006 en 4600 við fiskveiðar samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Hjá álverksmiðjunum þremur starfa nú um 1400 manns samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjunum sjálfum. Ferðaþjónustan er sá aðilinn sem minnstu kostar til í uppbyggingu við öflun hverrar evru og getur vaxið mikið án verulegra átaka við umhverfi sitt. Augu ráðamanna hljóta því að beinast að ferðaþjónustunni við þá erfiðleika sem nú steðja að þjóðinni. Tækifærin í ferðaþjónustunni eru vannýtt og augljóst að hingað má beina mun fleiri ferðamönnum en nú er, ef rétt er að málum staðið. Það þarf að markaðssetja landið meir og betur og styrkja innviði ferðaþjónustunnar á landsvísu. Markaðssóknin verður að byggjast á sameiginlegu átaki Ferðamálastofu og samtaka ferðaþjónustunnar um allt land.   

Einstaka landsvæði þurfa að byggja sig upp í markaðsstarfinu af meiri metnaði en hingað til  og á það ekki hvað síst við um hér á Suðurnesjum. Það hefur verið áralöng barátta ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum að hér rísi sameiginleg markaðsstofa fyrir ferðaþjónustuna. Það hefur einnig verið áralöng barátta Suðurnesjamenna að fá erlenda ferðamenn til að eyða meiri tíma á Suðurnesjunum af ferð sinni um Ísland. Árangurinn er ekki eins og menn hafa vænst. Erlendir ferðamenn til landsins 2007 voru 458 þúsund og komu um 90%  þeirra um Keflavíkurflugvöll.  Fæstar gistinætur voru á hótelum á Suðurnesjum árið 2007 um 3,0% af gistinóttum á landinu öllu og heildarnýting gistirýma um 57%. Þetta getur ekki talist ásættanlegt.

Ferðaþjónustuaðilar á Suðurnesjum hafa lengi gert sér grein fyrir þessum vanda og margt verið gert til að bjóða upp á afþreyingu af ýmsum toga. Má þar nefna glæsileg söfn, listsýningar, hótel, veitingastaði, ferðir, menningartengda ferðaþjónustu svo eitthvað sé nefnt sem mörg bæjarfélög og einstaklingar hafa staðið að af miklum myndarskap, en það þarf fleira til. Það sem flestir hagsmunaaðilar í ferðaþjónustunni á Suðurnesjunum  hafa bent á að vanti  er sameiginleg markaðssetning Suðurnesjanna í einni markaðsstofu. Allir aðrir landshlutar hafa séð nauðsyn slíkrar samþættingar markaðsstarfs hjá sér nema Suðurnesin. Erlendis hafa stór landssvæði samstarf þar sem sameiginleg markaðsstofa er talin vera klár nauðsyn og eðlileg þróun í nútíma ferðamálafræðum. Má þar benda á mikið samstarf ferðaþjónustunnar fyrir Norðaustur England (VisitNorthEastEngland). Það er ekki nóg að byggja upp flott söfn og sýningahús með tilheyrandi umfangi. Það verður að sinna markaðsstarfinu sameiginlega, við Suðurnesjamenn verðum að hugsa sem heild en ekki sem sveitarfélög.

Nefnd á vegum Ferðamálasamtaka Suðurnesja og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum  komst að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að sameiginlegt markaðsstarf og upplýsingagjöf fyrir ferðaþjónustuna á Suðurnesjum væri nauðsynlegt. Tillaga nefndarinnar hefur verið samþykkt innan stjórnar SSS og hún send sveitarstjórnunum til afgreiðslu. Fram að þessu hafa sveitarstjórnarmenn ekki séð ljósið en nú vona ég að breyting verði þar á. Ég vil með þessari grein skora á sveitastjórnarmenn á Suðurnesjum að samþykka þessa tillögu og veita nægu fjármagni til að stilla saman strengi ferðaþjónustunnar í öflugri markaðssetningu fyrir Suðurnesin sem einni heild. Aukinn ferðamannastraumur á Suðurnesin skapar atvinnu á Suðurnesjunum og býr til gjaldeyri.

Kristján Pálsson formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja