Margt hefur áunnist og bjartir tímar framundan
Næstkomandi laugardag ræðst það hvort við sjálfstæðismenn verðum áfram í meirihluta í Grindavík. Það stefnir í mikla baráttu þar sem sex framboð bjóða nú fram. Sjálfstæðisflokkurinn telur sig hafa unnið vel fyrir bæjarfélagið á kjörtímabilinu og hefur efnt flest af þeim metnaðarfullu atriðum sem fram komu í síðustu stefnuskrá. Þar má helst telja byggingu sex nýrra íbúða í Víðihlíð, framkvæmdir við nýtt íþróttahús eru hafnar og keypt hefur verið stórt húsnæði undir daggæslu barna frá 12 mánaða aldri.
Á næsta kjörtímabili stefnum við m.a að því að úthluta lóðum undir litlar íbúðir fyrir eldri borgara við Víðihlíð og tengja við þær 300 – 400 fermetra félagsaðstöðu. Þá leggjum við til að ráðinn verði ferðamálafulltrúi sem hafi yfirumsjón með að móta ferðamálastefnu fyrir bæinn. Einnig er mikilvægt að hefja framkvæmdir að nýrri aðkomu inn á knattspyrnuvöllinn með því að klára aðstöðuna við Hópið.
Kæri kjósandi! Það er í þínum höndum hverjum þú treystir til að standa við gefin loforð, við sjálfstæðismenn höfum sýnt að við erum traustsins verðir. Settu x við D til að tryggja örugga stjórn bæjarins næstu fjögur árin.
Guðmundur Pálsson
Skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins