Margir valkostir – tryggjum endurnýjun á Alþingi
Það er eitthvað sem segir mér að þú og ég getum verið sammála um töluvert af mjög stórum hagsmunamálum þjóðarinnar. Ég veit það nefnilega að 80% þjóðarinnar vilja leiðréttingar lána og afnám verðtryggingar. Ég veit það líka að 83% vilja auðlindirnar í þjóðareigu og 67% vilja nýja stjórnarskrá í anda frumvarps stjórnlagaráðs. Jafnframt eru um 75% sem vilja aðskilja stjórnmál og viðskiptalíf peningalega. Þess vegna valdi ég að bjóða mig fram fyrir Dögun þegar ég var hvött til þess að íhuga alvarlega að sækja um vinnu hjá þjóðinni á einum skemmtilegasta, kurteisasta og traustasta vinnustað sem völ er á ;-)
Dögun vill vinna í þjónustu og vera farvegur fyrir vilja þjóðarinnar í þessum stóru hagsmunamálum hennar.
Í kosningum í vor gefst landsmönnum einstakt tækifæri til að velja á milli nokkurra nýrra afla og hvet ég alla til að líta það jákvæðum augum og skoða þá vel sem vilja vinna að ofangreindum málum. Ég óska mér að allir velji sér einn nýjan flokk og það verði um 80% endurnýjun á Alþingi, einungis þannig náum við fram vilja þjóðarinnar.
Fjórflokkurinn og viðhengið:
XB vill raunverulegar aðgerðir í þágu heimilanna en tryggja kvótann í einkaeigu og henda stjórnarskrá fólksins í ruslið.
XD vill auma skattaafslætti í leiðréttingar lána sem lenda þá á ríkissjóði og talar um “samningsfrelsi” þegar kemur að afnámi verðtryggingar. Ætli sé kominn tími til áttunar innan XD að okkur hinum þykir fullkomlega eðlilegt að setja frelsinu ákveðnar skorður og láta ábyrgð fylgja því? XD vill líka tryggja kvótann í einkaeigu og henda stjórnarskránni.
XS vill bara ESB eða ESB.
XV klórar sér í hausnum núna og “hefði viljað gera eitt og annað”.
XA Björt framtíð – vill líka ESB eða ESB – en langar að segja þennan brandara oftar með að aðgerðir fyrir heimilin séu piss í skóinn og brosa út í annað á meðan þrjár fjölskyldur eru bornar út á degi hverjum. Svo eru þau eitthvað að velta fyrir sér að láta fólk greiða niður lánin sín með séreignasparnaði. Hmmmm... hljómar ekki mjög úthugsað.
Nýju öflin:
Nokkur ný öfl koma til greina hvað ofangreind stórhagsmunamál varðar.
XI – Flokkur heimilanna vill leiðréttingar lána sem lenda á bönkunum ... en síðan eiga allir að vera frjálsir að því að starfa samkvæmt samvisku sinni í öðrum málum.
XL – Lýðræðisvaktin vill vinna að ofangreindum málum, en þegar kemur að verðtryggingunni þá er Þorvaldur Gylfason búinn að föndra nýja verðtryggingu sem á að taka mið af launavísitölu og vísitölu neysluverðs til skiptis :) ... ekki er ég nú viss um að það standist neytendaverndarlögin.
XG – Hægri grænir eru með raunhæfa leið til leiðréttingar, en mér virðist sem þeir ætli að kaupa lánasöfn af vogunarsjóðunum á fullu verði og tryggja þeim þannig allan gróðann fyrir afsláttinn frá gömlu bönkunum og svo ætla þeir að hækka vextina og lengja í lánunum. Þetta er alveg hægt – en mig langar að fara aðra leið. Mér skilst að HG ætli að tryggja kvótann í einkaeigu og gefa líka spjaldtölvur í alla skóla.
XJ – Regnboginn vill leiðréttingar lána og afnám verðtryggingar og virðist vilja færa kvótann út í byggðir landsins, en ég er ekki viss um hvort þeir vilji nýja stjórnarskrá – en eitt er víst og það er að þeir vilja alls alls ekki að Ísland gangi inn í ESB.
XT.is – Dögun vill tryggja farveg fyrir vilja þjóðarinnar í öllum þeim málum sem nefnd voru í upphafi greinar. Leiðrétta lánin t.d. með 99% skatti af hagnaði bankanna og endurheimta ríkisaðstoðina sem þeim var veitt. Við erum líka skotin í skiptigengisleiðinni þar sem tekin yrði upp ný króna og gerð allsherjartiltekt í hagkerfinu með losun snjóhengjunnar og niðurfærslu bæði skulda og eigna - líkt og Þjóðverjar gerðu í þýska efnahagsundrinu. Við viljum tryggja afnám verðtryggingar og nýtt lánakerfi með vaxtaþaki. Dögun vill tryggja auðlindir í þjóðareigu og arð af þeim í ríkiskassann svo hægt sé að hækka persónuafslátt og lækka skatta. Eins viljum við fá nýja stjórnarskrá fólksins með beinu lýðræði sem veitir Alþingi nauðsynlegt aðhald. Minn draumur er að fólk í ofangreindum nýju öflum vinni saman að þessum brýnu hagsmunamálum þjóðarinnar á þingi.
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir,
oddviti Dögunar í Suðurkjördæmi