Marek Dementiuk – minning
Fréttir af hörmulegu umferðarslysi þann 13. september síðastliðinn fylltu mig óhug og ég fann fyrir ónotatilfinningu. Ég hafði áhyggjur af því að dóttir mín kynni að hafa orðið vitni að slysinu sem varð við skólann sem hún gengur í og á þeim tíma sem skóladegi hennar var að ljúka. Þær áhyggjur reyndust óþarfar en svo fékk ég þær hræðilegu fregnir að Marek hefði látist í slysinu.
Ég kynntist Marek þegar hann byrjaði að sækja æfingar hjá mér árið 2009 og með okkur tókst ágætis kunningsskapur. Hann átti það til að kíkja í kaffi heim til mín eða á skrifstofuna, oft bara til að spjalla en einnig til að leita ráða því Marek var stöðugt að vinna í að bæta lífsskilyrði fjölskyldu sinnar en Marek og eiginkona hans fluttu frá Póllandi til Íslands árið 2007 í von um betra líf. Ég hitti Marek á förnum vegi nokkrum dögum fyrir slysið afdrifaríka. Það lá vel á honum þegar hann sagði mér að hann væri fluttur úr Garðinum í Innri-Njarðvík, hefði nóg fyrir stafni og var bjartsýnn á framtíðina.
En enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Á svipstundu er Marek farinn, aðeins 37 ára gamall, og skilur eftir sig eiginkonu og þrjú börn, harmur þeirra og missir er mikill. Útför Mareks var gerð frá Innri-Njarðvíkurkirkju þann 22. september. Hann fékk fallega og vel sótta útför enda vinamargur og vel liðinn.
Framundan eru erfiðir tíma hjá fjölskyldu Mareks en Kinga, eiginkona hans, og börnin þrjú hafa takmarkað bakland til að styðja sig og styrkja í þessari raun. Ég höfða til samkenndar íbúa á Suðurnesjum, samborgara Mareks, eiginkonu hans og barna, en búið er að stofna stofna styrktarsjóð til að létta álagi á fjölskyldu hans.
Reikningur: 0123-15-129201, kt.040984-4619.
Ég votta fjölskyldu og vinum Mareks Dementiuk mínar dýpstu samúðarkveðjur,
Jóhann Páll Kristbjörnsson.