Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Málþroski, orðaforði og læsi
Föstudagur 26. janúar 2018 kl. 06:00

Málþroski, orðaforði og læsi

- Hvernig efla foreldrar málþroska barna sinna?

Foreldrar geta stuðlað að auknum málþroska hjá barni sínu og gefið því forskot á mikilvæga þætti er styðja við allt nám og framtíðarmöguleika þess. Orðaforða og grunn að læsi geta foreldrar kennt börnum sínum á ýmsa vegu. Í daglegu lífi má gera samskiptin jákvæðari og innihaldsríkari með tungumálinu svo nýr orðaforði og hugtök bætast stöðugt í þekkingarbrunn barnsins. Foreldrar geta lesið  sögur og bækur sem innihalda litríkt mál og góðan orðaforða og jafnvel gera börnin að meiri þátttakendum í sögunni. Foreldrar geta hvatt börn sín  til að segja frá atburðum og sögum, sungið með þeim og kennt þeim rím og  vísur. Það má því segja að foreldrar séu lykilpersónur í málþroska barna sinna fyrstu leik – grunnskólaárin.

Leik- og grunnskólar eru líka miklir áhrifavaldar í þessu máltöku- og þroskaferli sem á sér stað hjá börnum. Samstarf heimila og skóla við að efla orðaforða og læsi hjá börnum getur gert kraftaverk og foreldrar mega aldrei gleyma þessu mikilvæga hlutverki í uppeldi sínu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er mikilvægt að fylgjast vel með og greina þau börn strax sem þurfa á aðstoð að halda á öllum sviðum máls og tals. Ef við ætlum að ná betri árangri í læsi í alþjóðlegum samanburði þá verðum við að byrja á grunninum, grasrótinni, svo hægt sé að halda áfram að byggja ofan á þekkingu þeirra.

FFGÍR foreldrafélög grunnskólabarna í Reykjanesbæ bjóða öllum foreldrum barna (5-10 ára) á síðasta ári í leikskóla og á yngsta stigi í grunnskóla á örnámskeið um málþroska, orðaforða og læsi mánudaginn 29. janúar kl. 18-19 í Íþróttaakademíunni (fimleikahús).  Umfjöllun mun leggja sérstaka áherslu á að fræða foreldra  um hvernig þeir veita börnum sínum bestu mögulegu þroskaskilyrði er varðar tjáningu, orðaforða og læsi sem hefur áhrif á allt nám barnanna síðar á lífsleiðinni. Fyrstu árin leggja grunn að framtíðinni og aðkoma foreldra að málörvun barna sinna skiptir sköpum um framtíð þeirra.

Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur og höfundur námsefnis á þessu sviði hefur áralanga reynslu í starfi á Íslandi. Hún mun kynna á hagnýtan hátt fyrir foreldrum hvaða þættir það eru sem foreldrar geta tileinkað sér enn betur til að örva mál - og talþroska barnanna sinna.

Allir hjartanlega velkomnir
FFGÍR