Málstol - Hvað er það og hvað get ég gert?
Eftir Hildigunni Kristinsdóttur talmeinafræðing hjá Talþjálfun Suðurnesja
Þann 6. mars ár hvert halda talmeinafræðingar Evrópudag talþjálfunar hátíðlegan. Í ár var kastljósinu beint að þeim hópi sem á í erfiðleikum með tal eða mál vegna skaða á heila eða taugakerfi.
Það að geta talað er mjög mikilvægur hluti af daglegu lífi, störfum, skyldum og félagslegum tengslum. Í samfélaginu er hópur fólks sem lifir með málstol og hefur það mikil áhrif á daglegt líf þeirra. Málstol er tal- og máltruflun sem getur haft áhrif á tjáningu, málskilning, lestur og skrift. Algengasta orsökin er heilablóðfall en heilaæxli, sýking í heila eða heilaáverki getur líka orsakað málstol. Gera má ráð fyrir að allt að 150 manns greinist á hverju ári með málstol hér á landi.
Fólk sem lifir með málstol er á öllum aldri þó það sé algengara hjá eldra fólki. Einkennin eru mismunandi og erfiðleikarnir mismiklir. Sumir eru með væg einkenni, eiga kannski erfitt með að finna og segja nöfn eða skilja langan texta. Hjá öðrum er málstolið alvarlegt, viðkomandi skilur illa það sem er sagt í kringum hann, getur bara sagt stök orð eða alls engin orð, les ekkert og getur ekki skrifað. Manneskja með málstol getur líka verið með aðrar hamlanir, s.s. þvoglumæli, minnisskerðingu, lömun í hægri hluta líkamans eða sjónsviðsskerðingu. Málstol hefur EKKI áhrif á greind eða persónuleika fólks.
En hvernig er best að eiga samskipti við manneskju með málstol?
Hér eru nokkur atriði sem er gott að hafa í huga en mikilvægast af öllu er að sýna virðingu og þolinmæði.
Haltu augnsambandi og fylgstu með látbragði og líkamstjáningu viðkomandi.
Hægðu á talhraðanum.
Notaðu styttri setningar og leggðu áherslu á lykilorð.
Hafðu samskiptin einföld en eðlileg, ekki tala niður til viðkomandi.
Haltu þig við eitt umræðuefni í einu og láttu vita þegar þú skiptir um umræðuefni.
Gefðu viðkomandi tíma til að tala og sýndu þolinmæði. Ekki grípa orðið strax.
Notaðu látbragð, teikningar, bendingar og svipbrigði.
Ekki þykjast skilja ef þú skilur ekki það sem viðkomandi segir. Endurtaktu það sem þú heldur að hann eða hún sé að segja til að staðfesta að skilaboðin hafi komist rétt til skila eða spurðu já/nei spurninga.
Dragðu úr umhverfishávaða.
Þú þarft ekki að tala hærra nema viðkomandi biðji þig um það.
Opnar spurningar eru erfiðar mörgum, notaðu já/nei spurningar frekar.
Margir sem fá málstol draga sig í hlé og einangrast. Gott er að leita að stuðningshóp og einnig getur talþjálfun bætt mál, tal og lífsgæði.
Fimmtudaginn 26. mars kl. 13-16 stendur Félag talmeinafræðinga á Íslandi fyrir málþingi á Reykjalundi þar sem verða m.a. fyrirlestrar um talþjálfun og málstol. Aðgangur er ókeypis og eru áhugasamir hvattir til að skrá sig með því að senda tölvupóst á [email protected]. Nánari upplýsingar má finna á www. talmein.is.
Hildigunnur Kristinsdóttir er talmeinafræðingur hjá Talþjálfun Suðurnesja