Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Málpípa hins kjarklausa ráðherra á villigötum
Föstudagur 15. febrúar 2008 kl. 14:15

Málpípa hins kjarklausa ráðherra á villigötum

Böðvar Jónsson, minn gamli vinur, fer mikinn í aðsendri grein til Víkurfrétta í gær þar sem hann túlkar fyrir sjálfan sig áhyggjur formanns Framsóknarflokksins af efnahagsástandi hérlendis. Nú eru gífuryrði ekki til að elta ólar við og ætla ég því ekki að stökkva út í pollinn til Böðvars. Því skal haldið til haga að þó Böðvar skrifi greinina sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, þá hefur hann það að aðalatvinnu að aðstoða fjármálaráðherra við sín störf. Þess vegna væri athyglisvert að heyra hvað hann sjálfur hefur að segja um það ástand sem Guðni Ágústsson og þjóðin öll (að undanskildri ríkisstjórninni) hefur áhyggjur af því engu er líkara en fjármálaráðuneytið allt með Böðvar Jónsson innanborðs sé alls ótengt við atvinnulífið og fólkið í landinu.

Á sama tíma og undirliggjandi þensla í þjóðfélaginu gerir það að verkum að Seðlabankinn heldur stýrivöxtum  í hæstu hæðum, stendur fjármálaráðherra í sínu eigin kjördæmi og hvetur til áframhaldandi þenslu.  Til að gera langa sögu stutta, þá  er sú hvatning til þess fallin að auka verðbólgu og hækka vexti enn frekar með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir heimilin í landinu. Líka á Suðurnesjum. Það var fyrst og fremst innihald fréttarinnar sem tilkomin er vegna ábyrgðarleysis fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar sem birst hefur í verulegri innspýtingu á sviði ríkisútgjalda og einleiks á sviði efnahagsmála sem vinnur mjög gegn verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Það er ekki auðvelt að segja þetta og fjármálaráðherrann sjálfur treystir sér ekki í slík verk. Formaður Framsóknarflokksins þorði hins vegar að horfa á heildarmyndina og benda á augljósar staðreyndir. Það hefur ekkert með vilja til að skapa atvinnu að gera, heldur var fyrst og fremst óskað eftir því að ráðherrann færi að vinna vinnuna sína.

Eins og komið hefur fram í fréttum gerir álver án rafmagns lítið gagn. Væri ekki nær að aðstoðarmaður fjármálaráðherra og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ gerði grein fyrir því hvernig hann sér fyrir sér þróunina í Helguvík? Hvernig ætla menn að tryggja rafmagn í framhaldinu, er búið að ganga frá raflínustæðum og geta menn verið vissir um að umhverfisráðherra Samfylkingarinnar úthluti þeim mengunarkvóta? Það er nefnilega býsna mörgum grundvallarspurningum ósvarað. Getur verið að skóflustunga að álveri sé liður í því að blekkja Suðurnesjamenn? Getur verið að bæjarstjórinn með fulltingi fjármálaráðherra sé þar að skapa þrýsting á ríkisstjórn sem kemur sér ekki saman um neitt, talar út og suður og aðhefst nákvæmlega ekki neitt í því að koma böndum á efnahagsástandið, heldur þvert á móti? Að ekki sé talað um ráðherra Samfylkingarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn ræður illa við eða það að ráðherrar Sjálfstæðisflokks gefa sjálfir út yfirlýsingar þvers og kruss og eru ósammála innbyrðis um ýmis grundvallarmál. Staðreyndin er sú að fjármálaráðherrann og vinnuveitandi Böðvars treystir sér ekki til að ráðast gegn verðbólgu og þenslu, sem þó ætti að vera hans stærsta verkefni um þessar mundir, heldur situr með hendur í skauti og bíður eftir því að vandamálin hverfi. Ætli það heiti ekki verkkvíði eða ákvarðanatökufælni á fagmálinu?

Þá er heldur sérkennilegt að halda því fram að „heill flokkur á landsvísu skuli leggjast svo mjög gegn atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum“ eins og Böðvar heldur fram í grein sinni. Framsóknarmenn líta svo á að það séu mannréttindi að fólk hafi störf og því er rétt að minna á það mikla uppbyggingarstarf sem framsóknarmenn hafa unnið  í tengslum við Keflavíkurflugvöll og á ég þar bæði við Flugstöðina og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.  Í stjórn Leifsstöðar hafa á undanförnum árum, þrír af fimm stjórnarmönnum félagsins , gegnt trúnaðarstörfum á vegum Framsóknar.  Þeir hafa leitt hið mikla uppbyggingarstarf sem skapað hefur mörg hundruð manns vinnu á undanförnum árum. Með sama hætti gegnir einn þriggja stjórnarmanna í Þróunarfélaginu trúnaðarstörfum þar á vegum framsóknarmanna með þeim frábæra árangri að lífi hefur, af miklum krafti, verið blásið í yfirgefna herstöð og ný atvinnutækifæri hafa litið dagsins ljós.  Ég minni einnig á að í tíð ríkisstjórnar framsóknarmanna og sjálfstæðismanna tókst á einu kjörtímabili að skapa 12.000 ný störf í landinu. Gagnrýni á óábyrgar yfirlýsingar fjármálaráðherra hvað varðar Helguvíkurálver breyta ekki þeirri stefnu.  Það er hins vegar kominn tími til að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin öll svari því hvernig menn ætla að spila úr framhaldinu. Það á við um kjördæmi fjármálaráðherrans sem og landið allt. Öngstrætið blasir við og menn halda áfram á fullri ferð með bundið fyrir bæði augun.

Upplýsingar um atvinnuástand á Suðurnesjum sem  Böðvar birtir í grein sinni hafa að megninu til birst í mínu nafni á opinberum vettvangi, m.a. í Víkurfréttum.  Ég vil því nota tækifærið og þakka Böðvari fyrir að halda því til haga.

Helga Sigrún Harðardóttir
skrifstofustjóri þingflokks framsóknarmanna
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024