Málið varðar okkur öll
Árlega er efnt til svokallaðrar vímuvarnaviku með það að markmiði að vekja athygli landsmanna á mikilvægi forvarna, einkum forvörnum sem snúa að börnum og unglingum. Verkefnið ber yfirskriftina Vika 43 og stendur að þessu sinni yfir dagana frá 18. október til 24. október.
Vel upplýstir foreldrar eru góð forvörn og mikilvægt er að foreldrar eigi gott samstarf um vímuvarnir sín í milli og við skólann. Nú hafa verið stofnuð foreldrafélög við framhaldsskólana og þar starfa foreldraráð samkvæmt nýjum menntalögum. Forvarnarfulltrúar og náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskólum eru lykilfólk í samstarfi heimila og skóla um aldurshópinn 16 – 18 ára.
Foreldrar kannabisneytenda hafa lýst þeirri reynslu sinni að hafa grandalausir sofnað á verðinum og ekki þekkt þau einkenni sem koma fram við upphaf kannabisneyslu hjá ungu fólki. Hvernig byrgjum við brunninn?
Það er brýnt að efla fræðslu til foreldra um einkenni neyslunnar, umfang og afleiðingar sérstaklega í ljósi þess að kannabisneysla ungs fólks hefur aukist. ÍTalað er um að neytendum kannabisefna sem leita sér meðferðar hafi fjölgað um helming síðustu ár á Íslandi. Sjónum manna er nú í Viku 43 beint að kannabisneyslu ungs fólks og foreldrar hvattir til að vera vel á verði gagnvart þeim vágesti sem fíkniefni eru. Unga fólkið þarf stuðning sinna nánustu og foreldrum er mikið í mun að styrkja sjálfsmynd barna sinna og undirbúa þau sem best til að takast á við þau áreiti sem beinast að þeim. Komið hefur fram í íslenskum rannsóknum að eftirlit foreldra, stuðningur þeirra, og tengsl og foreldra við aðra foreldra og vini barna þeirra dregur úr líkum á vímuefnaneyslu.
Foreldrasamstarf í skólum er því liður í forvörnum.
Í raun eru allar vikur ársins vímuvarnavikur í þeim skilningi að forvarnir eru ekki afmarkað, tímabundið verkefni. Forvarnir eru miklu heldur samfellt og víðtækt viðfangsefni, sem varðar allt samfélagið, rétt eins og uppeldi og velferð barna. Heimil og skóli – landssamtök foreldra miða alla starfsemi sína við að styðja foreldra í uppeldishlutverkinu. Foreldrar kynnið ykkur málið og láti það til ykkar taka. Sjá nánar: heimiliogskoli.is og naumattum.is
Helga Margrét Guðmundsdóttir
verkefnastjóri hjá Heimili og skóla landssamtökum foreldra
Frá árinu 2004 hafa Heimili og skóli – landssamtök foreldra tekið þátt í Samstarfsráði um forvarnir, SAMFO