Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Málefni aldraðs fólks og uppbygging þjónustu
Mánudagur 25. febrúar 2013 kl. 08:46

Málefni aldraðs fólks og uppbygging þjónustu

- af borgarafundi í Sandgerði.

Fjölmennt var á borgarafundi um málefni aldraðs fólks og framtíðaruppbyggingu þjónustu við aldraða sem haldinn var í Sandgerði í vikunni. Tilgangur fundarins var m.a. að kynna þær breytingar sem framundan eru í málefnum sem snúa að öldruðum og leita eftir sjónarmiðum íbúa og áherslum þeirra á það sem framundan er. Þær breytingar sem einkum var rætt um var yfirfærsla á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga sem fyrirhuguð er í náinni framtíð, og svo breytingar á hjúkrunarþjónustu með tilkomu Nesvalla nýs 60 herbergja/íbúða hjúkrunarheimilis.

Guðrún Arthúrsdóttir bæjarfulltrúi ræddi um vilja bæjaryfirvalda til samráðs við íbúa um áherslur og stefnu í málefnum aldraðs fólks. Ítrekaði hún mikilvægi þess að vel væri staðið að þjónustu við aldraða þannig að fólk gæti búið sem lengst heima en að sama skapi væru til staðar hjúkrunarrými fyrir þá sem á því þyrftu að halda. Yfir 20 manns eru á biðlista nú eftir dvöl á hjúkrunarrými hér á Suðurnesjum. Alls eru 95 hjúkrunarrými á svæðinu en þyrftu að vera 130 miðað við hlutfall aldraðra íbúa.

Á fundinum kom fram að nýbygging hjúkrunarheimilis að Nesvöllum hefur ekki beinlínis í för með sér fjölgun hjúkrunarrýma heldur verður um að ræða tilfærslu þeirra. Fram kom í máli Sigurðar Garðarssonar framkvæmdastjóra Nesvalla að mæta þyrfti þörf fyrir hjúkrunarrými eins og hún er nú og jafnframt horfa til framtíðar. Nú væru 480 íbúar 80 ára og eldri á Suðurnesjum en mannfjöldaspá gerði ráð fyrir að eftir 20 ár myndi íbúafjöldi yfir áttræðu telja 1000 manns. Hann fór yfir teikningar af Nesvöllum og greindi frá því hvers konar starfsemi og þjónusta er fyrirhuguð þar. Ljóst er að hvorki Garðvangur né Hlévangur uppfylla þau skilyrði sem sett eru um skipulag húsnæðis og hefur Landlæknisembættið sent frá sér skýrslu þar um. Eigi að verða framhald á rekstri Garðvangs eða Hlévangs þarf að leggja í kostnað við breytingar sem nauðsynlegar eru svo sem stækkun herbergja og fleira. Nú stendur yfir vinna við að meta kostnað við nauðsynlegar breytingar á Garðvangi.

Fram kom í máli fulltrúa stjórnar félags eldri borgara, þeirra Jórunnar Guðmundsdóttur og Eyjólfs Eysteinssonar, að farsælast sé að samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum um rekstur Dvalarheimila á Suðurnesjum verði áfram með sama hætti og verið hefur. Telja þau að sveitarfélögin eigi að halda áfram að vinna að tillögum að því með hvaða hætti þjónustan við eldri borgara verði sem best fyrir komið og hvernig hægt sé að ná sem mestum ávinningi af samrekstri stofnana. Þá kom fram í máli Jórunnar að tryggja þyrfti að þau 18 rými sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur til umráða verði flutt á Nesvelli og að þar verði 80 hjúkrunarrými.

Finnbogi Björnsson framkvæmdastjóri Dvalarheimila Suðurnesja fjallaði um strauma og stefnur í rekstri hjúkrunarheimila og þá þróun sem átt hefur sér stað á síðustu árum m.a. um áherslu á innihaldsríkt líf og aukna þátttöku fólks í daglegu lífi og starfi á hjúkrunarheimilum. Þær Kristín Þyri Þorsteinsdóttir, félagsmálastjóri og Guðrún Sigurðardóttir yfirfélagsráðgjafi fóru yfir þjónustu sveitarfélagsins við aldraða íbúa og áætlanir um tilfærslu á málaflokki aldraðra frá ríki til sveitarfélaga.

Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024