Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Mælirinn er fullur
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 23:00

Mælirinn er fullur

„Þú getur fengið tíma eftir mánuð eða farið á vaktina”
Á undanförnum vikum höfum við fengið til okkar á kosningaskrifstofuna mikið af fólki sem segir okkur sögur af því hvernig heilbrigðiskerfið brást þeim. Sögurnar eiga það sammerkt að við frambjóðendur sitjum eftir reið, svekkt og sár. Það er ótrúlegt að hér í bæ hafi alist upp heilu kynslóðirnar sem þekkja það ekki hafa sinn eigin heimilislækni. Við sem samfélag verðum að leita allra mögulegra leiða til þess að tryggja hér eðlilega heilsugæsluþjónustu og þar verða bæjarfulltrúar að taka af skarið. 
 
Farið hefur verið með rangt mál
Guðný Birna Guðmundsdóttir skrifaði grein í Víkurfréttir í síðustu viku þar sem hún nefnir fjárskort, húsnæðisvanda og fjölgun íbúa sem helstu ástæður þess að þjónusta HSS sé ekki sem skyldi. Guðný er yfirleitt bæði fagleg og málefnaleg en gerir í greininni þó engan greinarmun á sjúkrahúsþjónustu og heilsugæslunni né nefnir þær brotalamir sem koma fram í skýrslu Landlæknis um rekstur og stjórnun stofnunarinnar. Guðný fer einnig með fleiri rangfærslur í greininni sem ég tel mig knúinn til þess að leiðrétta hér. 
 
Rekstur heilsugæslunnar og skuldahlutfall bæjarins
Reykjanesbær mun ekki og á ekki að borga með heilsugæslunni. Ríkið greiðir fyrir heilbrigðisþjónustu lögum samkvæmt. Möguleg aðkoma bæjarins að rekstri heilsugæslu hefur því alls ekkert með skuldahlutfall bæjarins að gera heldur eingöngu stjórnunarfyrirkomulag. B-listinn leggur til hugmynd að lausn sem á sér fordæmi og því óþarfi að slá slíka hugmynd út af borðinu án þess að kanna hana til hlítar. 
 
Alþekkt að bæjarfélög reki heilbrigðisþjónustu 
Akureyrarbær rak heilsugæsluna á Akureyri frá 1997 til 2014, þegar hún var sameinuð undir Heilbrigðisstofnun Norðurlands í kjölfar hagræðingar af hálfu ríksins. Áður höfðu samlegðaráhrif af heimaþjónustu og heimahjúkrun verið mikil. Nú er ákall um að Akureyrarbær taki aftur yfir heimahjúkrun en það fyrirkomulag er einnig að finna í stórum bæjarfélögum og nægir að nefna Reykjavík í því sambandi. Höfn í Hornafirði er annað dæmi um sveitarfélag sem rekur sína heilsugæslu með samningi við sjúkratryggingar Íslands. 
 
Hættum að berja hausnum við steininn 
Ætlum við íbúarnir að leita leiða til þess að tryggja hér eðlilega heilsugæsluþjónustu eða einfaldlega að gefast upp og sækja þjónustu í Kópavog? Þar er einkarekin heilsugæsla sem skilað hefur yfir 250 milljónum í arð til eigenda sinna og því ljóst að hægt er að reka heilsugæslu réttu megin við núllið án þess að gefa afslátt af þjónustugæðum. Ef ríkið getur fjármagnað einkarekstur þá getur ríkið svo sannarlega fjármagnað heilsugæslu þar sem samlegðaráhrif skila íbúum betri þjónustu. Hættum að berja hausnum við steininn og förum aðrar leiðir, annað er fullreynt. 
 
Frábært starfsfólk vinnur þrekvirki
Á HSS vinnur frábært starfsfólk þrekvirki á hverjum degi við erfiðar aðstæður. Hugmyndir okkar um aðkomu bæjarins að rekstrinum snúa ekki síður að starfsumhverfi þess og hvernig best megi bæta þjónustuna. 
 
B-listinn er lausnamiðað framboð. Við stöndum ekki fyrir stöðnun og úrræðaleysi. 

Við viljum að bæjarfélagið komi að rekstri heilsugæslunnar og munum fara þess á leit við heilbrigðisráðherra strax eftir kosningar.
 
Við getum gert það.
 
Jóhann Friðrik Friðriksson, 
oddviti B-listans í Reykjanesbæ og lýðheilsufræðingur
Public deli
Public deli