Maðurinn sem selur mjólkurkýrnar
Maðurinn sem selur mjólkurkýrnar er enn einu sinni komin á ferðina, Nú er það ekki mjólkurkúin sem hann vill selja heldur sjúkrahús bæjarins og heilbrigðisþjónusta. Hann er hræddur við að missa af tækifærinu. Og gefur í skyn að heilbrigðisráðherran sem ekki er tilbúinn að falla á hné sín og samþykkja gjörninginn sé afturhaldsmaður af verstu sort.
Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hefur sína sýn á lífið, og telur að grípa skuli hvert tækifæri sem gefst til að afla peninga, hversu skammvinnur sem gróðinn af þeirri peningaröflunarstefnu hans er fyrir það samfélag sem hann segist þó þjóna. Og beitir öllum þeim meðulum sem hann þekkir til að ná sínu fram hvað það varðar.
Nú í morgun birtist all ítarleg umfjöllun um síðasta ævintýri bæjarstjórans. Og sem betur fer þá kemur það þar fram sem hann hefur haldið fram í málflutningi sínum að væri ekki. Það kemur nefnilega fram í viðtali við Otto Nordhus og Maríu Bragadóttur fulltrúa Salt Investment að það eru ekki bara skurðstofurnar sem sóst er eftir heldur líka legurýmin sem fyrir eru.
Otto segir að fengju hann og bæjarstjórinn að stjórna skurðstofunum gætu þeir fyllt sjúkrahúsið af sjúklingum. Og það er einmitt þar sem vandamálið liggur. Sjúkrahúsið er nú þegar fullt af sjúklingum sem ekki þurfa á fegrunar eða lífstílstengdum uppskurðum að ræða heldur sjúklingum sem eru veikir af margvíslegum öðrum orsökum. Það er svo fullt að þar er jafnvel legið á göngunum suma daga.
Bæjarstjórinn segist vera hræddur við að missa af tækifærinu, en hirðir minna um hvað það er sem þarf að láta í staðinn fyrir tækifærið. Talar eins og sannur útrásarvikingur. Hvað ætlar hann sér að gera í heilbrigðismálum þeirra sem hann er kjörinn til að þjóna, þegar hann með forstjóra þessa erlenda fyrirtækis hefur fyllt sjúkrahúsið af sundurskornum erlendum sjúklingum? Því hefur hann ekki svarað, og svarar sennilega ekki því það virðist honum ekki koma við, bara að tækifærið fari ekki til Reykjavíkur. En það verða þeir sem hér búa þó að gera í auknu mæli verði þeir veikir, gangi hugmynd hans eftir.
Er ekki komin tími til að bæjarstjórinn, sem áður hefur selt flest allt sem naglfast er í Reykjanesbæ til einkaaðila í ljósi tækifæranna, fari nú að opna augun og sjá heimin eins og hann er. Og átti sig á að hugmyndfræði sú sem brennd er í kollin á honum er ekki að virka, eins og sést best á að Reykjanesbær er í dag eitt skuldsettasta bæjarfélag landsins, þrátt fyrir aðkomu einkaaðilanna hans. Og sennilega verði hann að selja það sem eftir er í t.d. HS Orku svo bæjarfélag þetta verði ekki gjaldþrota. Að rekstur bæjarfélags snýst ekki bara um krónur og aura heldur líka um lífsskilyði þeirra sem þar búa. Og þar er heilbrigðisþjónusta mikilvægur hlekkur, sem fæstum dytti í hug að selja frá sér.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson