MAÐUR NÝSKÖPUNAR
Hjálmar Árnason, alþingismaður, hefur með stöfum sínum á Alþingi sýnt það og sannað að þar fer réttur maður á réttum stað á réttum tíma. Á þeim fjórum árum sem hann hefur nú setið á Alþingi Íslendinga hefur hann farið í fararbroddi í umræðum um nýsköpun og umhverfismál. Þetta hefur honum tekist án ofstækis, sem því miður hefur svo oft orðið reyndin þegar þessa málaflokka hefur borið á góma. Hann hefur verið talsmaður aukinnar menntunar og tilrauna á tæknisviðinu. Hann hefur sýnt nútímalega hugsun og skýra framtíðarsýn. Hjálmar hefur átt frumkvæði að, leitt eða tengst mörgum áhugaverðum verkefnum. Má þar nefna notkun vetnis sem eldsneytis á bifreiðar og samninga við alþjóðleg fyrirtæki þar um og notkun rafbíla sem nú hafa litið dagsins ljós m.a. á Suðurnesjum. Önnur verkefni sem vert er að nefna af verkefnalista þingmannsins í nýsköpunar og umhverfismálum eru: Verðlaunabíll Handíða- og myndlistarskólans, vistvænn hreinsilögur sem Sigurður Hólm hefur hafið framleiðslu á í Reykjanesbæ, nýr samningur um saltverksmiðjuna á Reykjanesi, væntanlegt risagróðurhús í Svartsengi, fyrsta fríiðnaðarfyrirtækið á Íslandi Themo Plus, byltingarkenndur björgunarbúnaður Þorbjörns Friðrikssonar fyrir sjómenn, rekstrarleyfi Suðurflugs á Keflavíkurflugvelli og svo mætti lengi telja. Ef Hjálmars hefði ekki notið við á Alþingi er hætt við að lítið eða minna hefði orðið úr þeim verkefnum sem hér eru nefnd. Við aldamót er mikilvægt fyrir þjóðina að hafa menn á þingi sem eru nútímalegir í hugsun, hafa skýra og heilbrigða framtíðarsýn, eru í góðu sambandi við kjósendur og taka mark á skoðunum þeirra. Þannig maður er Hjálmar Árnason og vil ég hvetja alla Suðurnesjamenn til þess að tryggja Hjálmari áframhaldandi þingsetu með því að setja x við B laugardaginn 8. maí n.k. Kjartan Már Kjartansson