Maður líttu þér nær
– Hannes Friðriksson skrifar
Það er óhætt að segja að íbúar Reykjanesbæjar hafi tekið vondum fréttum um fjárhag bæjarins af stillingu. Ákveðið að snúa saman bökum til að vinna bug á þeim mikla vanda við er að eiga þrátt fyrir að ljóst sé að gjöld munu hækka umtalsvert. Það að ná fram 900 milljón króna hagræðingu á ári er hvorki auðvelt né eftirsóknarvert fyrir þá er í lenda.
Annarsvegar verður það gert á tekjuhliðinni og svo á gjaldahliðinni. Á gjaldhliðinni er það hægt með sparnaði í rekstri eftir því sem unnt er. Á tekjuhliðinni verður það helst gert með fjölgun starfa sem gefa betri útsvarstekjur ásamt því að hækka gjöld eftir því sem hægt er. Blönduð leið sparnaðar og hækkunar tekna þar sem reynt er að dreifa byrðinni sem jafnast og gera hana bærilegri. Það þýðir að kanna verður allar mögulegar leiðir í þeirri viðleitni að ná árangri. Það er sú leið er bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur samhljóða valið að fara og er kölluð Sóknin.
Öll gagnrýni er af hinu góða, svo lengi sem hún byggir á réttum forsendum og er um leið málefnaleg. Gagnrýni má ekki verða til þess að einum sé stillt upp á móti öðrum í þeim tilgangi einum að skapa ófrið. Slíkt virðist mér Margeir Vilhjálmsson reyna að gera í grein sinni í Víkurfréttum þar sem hann fer vægast sagt frjálslega með staðreyndir máls, um leið og reynir að níða af þeim skóinn er síst skyldi, á lágkúrulegan hátt. Á þeim dansi þurfum síst að halda nú.
Margeir fer yfir uppsögn á yfirvinnu og ákvæðum um aksturspeninga starfsmanna bæjarins, þar sem hann leggur áherslu á hver sú upphæð sé í heild eða 675 milljónir króna. Hann velur hinsvegar að geta þess ekki að með uppsögn á þessum lið sé einungis áætlað að ná fram um það bil 250 milljóna króna sparnaði. Eftir standa skv. tölum Margeirs þá 425 milljónir sem hér eftir sem hingað til renna í bílastyrki og yfirvinnuálags til starfsmanna, sem við erum sammála um að séu verðugir launa sinna.
Það sem er þó verra í grein Margeirs er sú ómerkilega aðför hans að Guðbrandi Einarssyni sem sæti á í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og bæjarráði. Dregur inn starf hans sem forsvarsmanns Verslunarmannafélags Suðurnesja og gerir hann ábyrgan fyrir að eftir 12 ára valdatíma sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ og tuttugu og sex þúsund milljóna rekstrarhalla skuli það vera hann sem ákveði að lækka laun ákveðins hlutar bæjarstarfsmanna. Maður líttu þér nær.
Víst er það rétt að Guðbrandur hefur verið launþega megin borðsins undanfarin ár við að semja um bætt kjör launþegans, en það er sko líka ljóst að þau laun væru svo miklu miklu hærri ef mótaðilinn hefði ekki eitthvað um það að segja. Þeim megin situr því miður sjálfur Margeir Vilhjálmsson sem atvinnurekandi á hliðarlínunni. Kannski hann ætti frekar að leggja lágum útsvarsgreiðendum í Reykjanesbæ lið á þeim væng lífs síns frekar en að ráðast á þá sem þó reyna. Það gæti hækkað grunnlaun starfsmanna bæjarins umtalsvert og væri um leið stórmannlegt.
Því skal að lokum haldið til haga að Guðbrandur Einarsson hefur um langt árabil bent á varhugaverðan rekstur Reykjanesbæjar. Um það getur Margeir vitnað lesi hann bæði fundargerðir bæjarstjórnar, bæjarráðs og fjölmargar greinar hans í Víkurfréttum um fjárhagsstöðu bæjarins. Vandinn væri örugglega minni ef á hann hefði verið hlustað.
Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson