Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Má biðja um málefnalega umræðu?
Fimmtudagur 25. október 2012 kl. 09:15

Má biðja um málefnalega umræðu?

Þegar rætt er um þarfir hvers manns til bærilegs lífs, þá hefur hugur minn hingað til, hvarflað að þeim grunnþáttum, sem enginn getur án verið þ.e fæði,vatn, húsaskjól og sem best heilsufar. Þrátt fyrir sterkar pólitískar skoðanir hefur mér þó aldrei dottið í hug að "rétt stjórnmálaskoðun" eða stuðningur við „réttan“ stjórnmálaflokk væri uppá líf og dauða, -en veit að það getur ráðið miklu um afkomu alls almennings að styðja stjórnmálaflokk, sem hefur velferð fjöldans á stefnuskrá sinni, -en ekki bara velferð fárra.

Nú virðast frambjóðendur um efstu sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi hafa ákveðið að færa stjórnmálin í áður óþekktan búning,og ákveðið að telja kjósendum trú um að það væri ekki bara mikilvægt fyrir þjóðina, heldur beinlínis lífsnauðsynlegt fyrir íbúa Suðurkjördæmis, að stefna Sjálfstæðisflokksins í skatta- og atvinnumálum komist í framkvæmd. Til að finna fullyrðingum sínum stað, benda þeir á ónýtt tækifæri í orkunýtingu í kjördæminu, breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, og svo meint rothögg á ferðaþjónustu. Það er óhætt að segja að þeir gusa mest sem grynnst vaða.

Orkunýtingin
Hvaða ónýttu tækifæri í orkunýtingu á Suðurlandi eru það sem ríkistjórnin á að hafa tafið "bæði ljóst og leynt" eins og segir í yfirlýsingu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur um framboð sitt?  Ekki er um mörg tækifæri að ræða svo ljóst má vera að hér eru menn að tala um uppbyggingu álvers í Helguvík. Hvar hefur verkið strandað fram til þessa? Eru það ekki samningar á milli orkukaupandans Norðuráls og orkusalans HS Orku, sem eru stærsta hindrunin? Ekki verður annað skilið, hvorki af ummælum forsvarsmanna Norðuráls né HS Orku, né heldur niðurstöðu gerðardóms í Svíþjóð. Hvernig samningar tveggja einkafyrirtækja eiga skyndilega að vera komnir í hendur ríkisstjórnar er vandséð, enda vita frambjóðendur íhaldsins hið rétta í málinu, en vilja blekkja kjósendur með rangfærslum.

Breytingin á fiskveiðistjórnarkerfinu
Fiskveiðifrumvarpið, sem lagt hefur verið fram, er réttlætismál. Í því er gert ráð fyrir að þjóðin njóti afraksturs af auðlind sinni er vel gengur. Aldrei hefur samfélagið haft jafnríka þörf fyrir arð af auðlindum sínum. Á hvern hátt og fyrir hverja það er lífspursmál að þjóðin sem heild njóti ekki arðs af auðlind sinni verða sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi að svara. Væri þeim ekki nær, að leggjast nú á árar með  stjórnvöldum og leita niðurstöðu um á hvern hátt hagur byggðalaganna yrði best tryggður, þegar kemur að úthlutun fiskveiðiheimilda. Koma þá í veg fyrir að stór hluti afkomu heilu byggðarlagana sé seldur í burt til að þjóna sérhagsmunum yfirstéttar útgerðarmanna. Að láta af átakastjórnmálunum og hugsa í lausnum.


Þurfum ekki að niðurgreiða ferðaþjónustu
Fólkið í landinu á að njóta arðs af auðlindum þjóðarinnar, og á ekki að greiða með erlendum ferðamönnum, enda ferðaþjónusta ekki lengur sá sproti sem þarf á meðgjöf að halda. Öflugt atvinnulíf er undirstaða allrar velferðar en það á að ríkja jafnræði með atvinnugreinum. Við getum öll verið sammála um og vitum að ferðaþjónustan hefur slitið barnsskónum og er fullburðug til að greiða þau gjöld, er boðuð hafa verið.  Það er svo annað mál hvort ekki sé sanngirni fólgin í því að veita greininni aðlögunartíma vegna markaðssetningar, sölusamninga og verðskráa, sem gerðar eru fram í tímann. Stóra verkefnið er hvernig við ætlum að þjónusta milljón ferðamenn árið 2018, og hvaðan fjármunir eiga að koma til þeirrar almennu uppbyggingar sem þörf er á.

Málefnaleg umræða
Virðing Alþingis er nú í sögulegu lágmarki sökum þeirrar átakastjórnmála, sem þar hefur verið stunduð. Aldrei fyrr í lýðveldissögunni hefur verið meiri þörf á, að kjörnir fulltrúar hennar tali málefnalega um hlutina. Framundan eru verkefni sem verður að leysa. Fjölskyldurnar og fyrirtækin reiða sig á, að nú þegar landið rís á ný, stígi stjórnmálamennirnir upp úr þeim skotgröfum, sem þeir hafa grafið svo djúpar, leggi fram raunhæfar tillögur svo hjól atvinnulífsins snúist hraðar og fari svo að rétta betur hag heimilanna. Það gerist ekki með átakapólitík og hræðsluáróðri um það sem ekki er. Það gerist eingöngu með málefnalegri umræðu, sem leiðir af sér virðingu fyrir mikilvægi eðlilegra skoðanaskipta.

Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson
Frambjóðandi í 3.sæti í flokksvali Samfylkingar í Suðurkjördæmi.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024